20.5.2020 9:36

Macron missir þingmeirihluta

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands standa á ótraustum grunni á heimavelli þegar þau kynna áform til bjargar samstöðu innan ESB.

Úrsagnir þingmanna úr flokknum sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti stofnaði árið 2016, la République en Marche! eða En Marche! – Áfram! – eru orðnar svo margar að flokkurinn hefur ekki lengur hreinan meirihluta á þingi. Hann hlaut 308 þingsæti af 577 í kosningum sumarið 2017 en nú sitja 288 þingmenn undir merkjum flokksins. Þeir sem gengið hafa á brott hafa stofnað nýjan flokk sem kennir sig við umhverfi, lýðræði, samstöðu. Forsetaflokkurinn á hins vegar óformlegt samstarf við tvo smáflokka, MoDem og Agir, sem ráða sameiginlega yfir 56 þingsætum. Stjórnin styðst því við enn við þingmeirihluta en virðing og áhrif forsetans hafa beðið hnekki að mati stjórnmálaskýrenda.

9a47cc30b8a2280bc63ad18508021aa1-800xTveir kanslarar: Sebastian Kurz Austurríki og Angela Merkel Þýskalandi.

Þegar Macron stóð að stofnun flokksins var hann í ríkisstjórn sósíalista og ráðgjafi François Hollandes, þáv. Frakklandsforseta. Hann var flokksbundinn sósíalisti frá 2006 til 2009 en utan flokka 2009 til 2016. En Marche! (upphafsstafir sömu og í nafni forsetans) er nú lýst þannig að hann gangi þvert á hefðbundnar flokkslínur. Sjálfur segir Macron að flokkurinn sé framsækinn bæði til vinstri og hægri. Sumir segja flokkinn líkjast breska Verkamannaflokknum undir forystu Tonys Blairs, þá var „þriðja leiðin“ svonefnda farin. Kannanir sýna að í huga franskra kjósenda hefur En Marche! færst jafnt og þétt til hægri og nú líta 45% á flokkinn sem mið-hægriflokk.

Frakkar tala um fimmta lýðveldið og vísa þá til stjórnkerfisins sem Charles de Gaulle hershöfðingi innleiddi þegar hann varð forseti árið 1958. Emmanuel Macron er áttundi forseti V. lýðveldisins og segja stjórnmálaskýrendur að hann hafi á fyrstu þremur árum sínum í embætti glímt við meiri og alvarlegri vandamál, hvert á eftir öðru en allir forverar hans.

Langvinnt félagslegt uppnám hefur ríkt í Frakklandi undanfarin þrjú ár. Mótmælahreyfingin „gulvestungar“ kom til sögunnar í nóvember 2018 vegna óánægju með hækkun á eldsneytissköttum sem síðar voru afnumdir; lengstu verkföll síðan árið 1968 hafa staðið gegn breytingum á lögum um eftirlaunaaldur, breytingartillögum frestað vegna COVID-19; nú er glímt við kórónufaraldurinn, 27.000 manns hafa fallið fyrir veirunni í Frakklandi, útgöngubann hefur gilt í tvo mánuði í landinu sem er einsdæmi á friðartímum; við blasir versta efnahagskreppa heims frá árinu 1929.

Emmanuel Macron er talsmaður sjónarmiða suðlægra ríkja innan ESB. Þau hafa orðið verst úti ríkja sambandsins vegna COVID-19-faraldursins. Talið er að hlutur þeirra kunni að batna vegna tillagna sem Macron og Angela Merkel Þýskalandskanslari kynntu mánudaginn 18. maí um 500 milljarða evru kórónuveirusjóð, með honum verði fé flutt úr norðri til suðurs innan ESB.

Undir forystu Sebastians Kurz, kanslara Austurríki, hafa Danir, Hollendingar og Svíar lýst efasemdum um áform Macrons og Merkel.

Innan Þýskalands á Merkel undir högg að sækja þegar dregur að lokum 16 ára ferils hennar sem kanslara og allt er í óvissu um hver tekur við forystu í kristilegum flokki hennar, CDU.

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands standa á ótraustum grunni á heimavelli þegar þau kynna áform til bjargar samstöðu innan ESB.