24.4.2022 10:47

Macron – Le Pen, taka 2

Þau kepptu einnig í seinni umferð forsetakosninganna árið 2017 og þá sigraði Macron með yfirburðum (66,10% – 33,90%). Talið er að munurinn verði minni núna, kannanir benda til 54% – 46%.

Seinni umferð frönsku forsetakosninganna er í dag (24. apríl). Spáð er að Emmanuel Macron (f. 1977) nái endurkjöri sem forseti. Það hefur ekki gerst síðan 2002 þegar sitjandi forseti, Jacques Chirac, var endurkjörinn.

Samkvæmt nýrri könnun Ipsos-Sopra Steria greiða aðeins 36% kjósenda Macron atkvæði af því að þeir treysta honum. Aðeins 25% líta þannig á að Macron sé fulltrúi sömu skoðana og þeir hafa. Flestir, 39%, ætla að kjósa Macron til að útiloka keppinaut hans, Marine Le Pen, frá forsetaembættinu.

Þau kepptu einnig í seinni umferð forsetakosninganna árið 2017 og þá sigraði Macron með yfirburðum (66,10% – 33,90%). Talið er að munurinn verði minni núna, kannanir benda til 54% – 46%.

VIOYJVMSUVJYFBBGXOP3F72FPA

Í fyrri umferð kosninganna 10. apríl fékk vinstrisinninn Jean-Luc Mélenchon um 22% atkvæða. Þá var strax hrundið af stað umræðu og áróðri um að Macron yrði að tryggja sér góðan stuðning þessara kjósenda í síðari umferðinni. Le Figaro lýsir þessum málflutningi sem óvinveittri yfirtöku vinstrisinna á kosningabaráttunni í þeim tilgangi að neyða miðjumanninn Macron til að færa sig lengra til vinstri á lokametrunum og taka undir eitthvað af baráttumálum Mélenchons. Þessi yfirtaka hafi að nokkru leyti heppnast. Macron hafi til dæmis á kosningafundi í Marseille hallað sé meira til vinstri en áður í loftslags- og umhverfismálum. Lofaði hann til dæmis að unnt yrði að leigja rafmagnsbíla fyrir innan við 15.000 ISK á mánuði.

Í Le Figaro er bent á daður Macrons til vinstri sé hættuspil. Hann ætti frekar að beina athygli sinni að þeim sem tóku ekki þátt í fyrri umferðinni 10. apríl. Þeir hafi verið 12,8 milljónir en Jean-Luc Mélenchon hafi fengið 7,7 milljónir til að kjósa sig. Mun fleiri séu í fyrri hópnum en þeim síðari auk þess geti Macron ekki gengið að kjósendum hægri flokkanna sem vísum. Þanþol þeirra gagnvart vinstristefnunni sé ekki takmarkalaust.

Tapi Marine Le Pen (f. 1968) verður það í þriðja sinn sem hún verður undir í forsetakosningum. Áður hafði faðir hennar, Jean-Marie Le Pen, gert fimm árangurslausar tilraunir til að ná kjöri sem Frakklandsforseti. Telja stjórnmálaskýrendur að nú hljóti að sannast að framboð úr þessari átt sé runnið út á tíma.

Le Pen hefur háð öfluga kosningabaráttu. Macron segir að hann hafi tæplega haft tíma til að hitta kjósendur vegna stríðsins í Úkraínu. Hann er talinn hafa haft betur í þriggja tíma sjónvarpskappræðum þeirra miðvikudaginn 20. apríl en þó mældust yfirburðir hans í augum áhorfenda mun minni en fyrir kosningarnar 2017 þegar hann gerði lítið úr Le Pen.

Sigri Marine Le Pen í dag veldur það miklu uppnámi í Frakklandi, Evrópu og innan ESB fyrir utan að gleðja Vladimir Pútin sem studdi flokk Le Pen fjárhagslega á sínum tíma.

Úrslit forsetakosninganna liggja fyrir í kvöld. Það verður hins vegar ekki fyrr en að loknum kosningum til franska þingsins í júní sem unnt verður að gera sér grein fyrir hvernig stjórn Frakklands verður háttað næstu fimm ár.