27.2.2022 8:07

Lygum Pútins dreift

Þjóðaröryggisráð gerði sérstakt átak fyrir tveimur árum til að vara við upplýsingaóreiðu vegna heimsfaraldursins. Nú er ekki síður mikið í húfi og augljóst að sótt er að opnum lýðræðisþjóðum með beinum lygahernaði.

Hlustendur Útvarps Sögu eða lesendur bloggara og fjölmiðlamanna sem ganga erinda Pútins ættu að velta fyrir sér hvort ný fyrirmæli rússneska fjölmiðlaeftirlitsins Roskomnadzors setji nú svip á frásagnir strámannanna eða skrif nettröllanna.

Roskomnadzor gaf laugardaginn 26. febrúar út fyrirmæli um að hvorki mætti birta fréttir né frásagnir með orðunum „árás“, „innrás“ eða „stríðsyfirlýsingu“ í lýsingum á tilefnislausri allsherjarárás rússneska hersins á Úkraínu.

Fjölmiðlaeftirlitið sagðist hafa hafið rannsókn á „óábyrgri miðlun upplýsinga um mál sem snerti almannahag“. Beindist rannsóknin að því sem birtist í nánar tilgreindum fjölmiðlum þegar þeir segðu frá stríðinu í Úkraínu.

Fjölmiðlarnir voru sakaðir um að flytja „ónákvæmar upplýsingar um sprengjuárásir á borgir í Úkraínu og um mannfall meðal almennra borgara í Úkraínu vegna aðgerða rússneska hersins“.

Roskomnadzor hótaði að loka fréttamiðlum færu þeir ekki að fyrirmælum eftirlitsins. Einnig voru boðaðar sektir.

Bent var á fjölmiðlar gætu einungis fundið „áreiðanlegar upplýsingar“ með því að skoða „opinberar rússneskar fréttaveitur“.

Erepublic.brightspotcdn.comÍ fréttum kemur fram að um 100 rússneskir blaðamenn, þar á meðal starfsmenn ríkismiðlanna TASS og RT, hafi skrifað undir opið bréf og fordæmt „hernaðaraðgerðir Rússa gegn Úkraínu“.

Föstudaginn 25. febrúar tilkynnti Roskomnadzor að aðgangur að Facebook yrði takmarkaður vegna þess að ritstjórn samfélagsmiðilsins hefði útilokað birtingu opinberra frásagna ýmissa rússneskra ríkismiðla, t.d. RIA Novosti.

Rússnesk stjórnvöld reyna þannig með öllum ráðum að stjórna allri miðlun upplýsinga um stríðið í Úkraínu fyrir utan að banna mótmælaaðgerðir gegn því. Þrátt fyrir þetta berast fréttir um að um 700.000 manns hafi skráð nafn sitt á rússneska vefsíðu þar sem almenningur er hvattur til að rísa gegn stríðsaðgerðunum.

Fyrir um það bil 40 árum greip sovéska ríkisstjórnin til þess ráðs að banna frásagnir af hernaði sovéska hersins í Afganistan á þeim tíma. Andúð á stríðinu jókst þó jafnt og þétt eftir því sem fleiri líkkistur hermanna bárust til Rússlands. Þær sögðu sögu um atburði sem yfirvöldin vildu að færu leynt. Ólga vegna ófaranna í Afganistan er talin hafa átt ríkan þátt í innanmeininu sem stuðlaði að hruni Sovétríkjanna og sömu sögu er að segja um Tsjernobyl -kjarnorkuslysið. Rússar lögðu sérstaka áherslu á að ná rústum kjarnorkuversins undir sig á fyrsta degi innrásarinnar frá Hvíta-Rússlandi inn í Úkraínu.

Þöggunarárátta Moskvuvaldsins breytist ekki með nýjum stjórnarherrum í Kreml. Það sem hefur breyst frá því sem áður var er markviss misnotkun Kremlverja á samfélagsmiðlum og frelsi opinna þjóðfélaga til að miðla falsfréttum og fegra eigin hlut með upplýsingaóreiðu. Hér á þarf að vera á varðbergi gegn þessari undirróðursstarfsemi og snúast gegn henni.

Þjóðaröryggisráð gerði sérstakt átak fyrir tveimur árum til að vara við upplýsingaóreiðu vegna heimsfaraldursins. Nú er ekki síður mikið í húfi og augljóst að sótt er að opnum lýðræðisþjóðum með beinum lygahernaði.