18.10.2024 9:58

Lygasaga um rússaviðskipti Skagans

Nú má lesa þá lygasögu til að sverta hlut Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að gjaldþrot tæknifyrirtækisins Skagans megi rekja til hennar.

Vegna kosninganna sem í hönd fara verður forvitnilegt að fylgjast með umræðum í ljósi hagsmunagæslu þjóðarinnar út á við og hvort einhverjir straumar bendi til þess að frambjóðendur eða álitsgjafar gangi erinda einhverra sem vilja grafa undan trausti í garð stjórnvalda eða einstakra stjórnmálamanna.

Í júní 2023 var tilkynnt að starfsemi sendiráðs Íslands í Rússlandi yrði lögð niður og Rússum gert að minnka umsvif sín hér, til dæmis myndi sendiherra ekki lengur stjórna sendiráði Rússa í Reykjavík. Þá bæri Rússum að „lágmarka starfsemi sendiráðsins á Íslandi til samræmis við þessa ákvörðun.“

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins frá 9. júní 2023 sagði að öll samskipti við Rússland væru í lágmarki hvort sem litið væri til viðskiptalegra, menningarlegra eða stjórnmálalegra tengsla. Forsendur fyrir starfsemi sendiráðs í Moskvu hefðu gjörbreyst eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022. Ekki væri um slit á stjórnmálasambandi að ræða. „Um leið og aðstæður leyfa verður lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.

Allar vestrænar þjóðir hafa dregið úr sendiráðsstarfsemi í Rússlandi undanfarin misseri. Norðmenn lokuðu til dæmis ræðisskrifstofu sinni í Múrmansk strax 1. júlí 2022, annars hefðu þeir orðið að grípa til umfangsmikilla ráðstafana til að tryggja öryggi starfsmanna sinna sem sættu áreiti, líklega að undirlagi rússneskra yfirvalda. Starfsmenn íslenska sendiráðsins í Moskvu bjuggu þar við vaxandi öryggisleysi. Nú snýst starfsemi norrænna sendiráða í Moskvu að verulegu leyti um að gæta öryggis starfsmanna með aðferðum sem ekki er beitt af íslensku utanríkisþjónustunni.

Þá leiddi ákvörðunin sumarið 2023 til þess að starfsmönnum rússneska sendiráðsins í Reykjavík fækkaði. Þeir urðu færri en 10 en voru allt að 30.

Screenshot-2024-10-18-at-08.38.32Það var á árinu 2021, tveimur árum fyrir lokun sendiráðs Íslands í Moskvu, sem Skaginn varð fyrir fjárhagslegu reiðarslagi og hvarf frá öllum verkefnum í Rússlandi. Eftir að Pútin sendi her inn í Úkraínu hrundi allur grunnur slíkra verkefna.

Nú má lesa þá lygasögu til að sverta hlut Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra vegna þessarar óhjákvæmilegu ákvörðunar að hún hafi leitt til gjaldþrots tæknifyrirtækisins Skagans.

Skaginn var í miklum viðskiptum við Rússland fyrir COVID-19. Truflanir á viðskiptum vegna COVID-19 hófust í febrúar 2020 og í rúm tvö ár hafði heimsfaraldurinn alvarleg áhrif á alþjóðaviðskipti.

Á þessum árum hægðist á öllu í Rússlandi. Erfitt var að ljúka verkefnum sem voru í vinnslu þar og ekki var stofnað til nýrra verka. Síðasta verkefni Skagans í Rússlandi var fyrir fyrirtækið Lenin á Kamtstjaka sem lenti í greiðsluerfiðleikum og stóð ekki við greiðslur til Skagans. Seinni hluta árs 2021 hætti Skaginn að vinna fyrir Lenin. Þar með lauk öllum verkefnum Skagans í Rússlandi.

Það er mikil bíræfni nú, árið 2024, að ljúga því að ákvörðun sem tekin var af illri nauðsyn sumarið 2023 um lokun sendiráðsins í Moskvu 1. ágúst 2023 hafi leitt til gjaldþrots Skagans sem hvarf frá öllum verkefnum í Rússlandi árið 2021. Eftir að Pútin réðst inn í Úkraínu 2022 hrundi grunnur allra vestrænna hátækniviðskipta við Rússa.

Erfitt er að átta sig á hvað vakir fyrir þeim sem spinna þennan lygavef um Skagann eða hvaða hagsmunum það þjónar öðrum en að ganga erinda Pútins.