14.3.2023 9:49

Lygar Lavrovs og annarra

Umræður um innlend mál draga stundum dám af aðferðunum sem Pútin og Lavrov nota, annaðhvort er hreinlega logið eða legið á upplýsingum til að fegra lélegan málstað.

Allur heimurinn er vitni að lygum rússneskra ráðamanna um stríðið í Úkraínu. Það var hlegið að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, og púað á hann í Delí á dögunum þegar hann reyndi að telja ráðstefnugestum trú um að Úkraínuher væri ekki annað en handbendi Vesturlanda og NATO sem beittu úkraínskum hermönnum í innrás í Rússland í gegnum Úkraínu.

Í viðtali við þýska vikuritið Der Spiegel sagði bandaríski sagnfræðingurinn Timothy Snyder:

„Pútin kann að falla; þeir gera það alltaf einhvern tíma. Vilji hann halda völdum, lýsir hann yfir sigri þegar hann tapar. Hann segir kannski að Vesturlönd hafi ráðist á Rússa og árás NATO hafi verið stöðvuð í Úkraínu. Það er unnt að fela marga ósigra með því að búa til slíka sögu.“

Viðtalið við Snyder má lesa í heild á íslensku á vardberg.is sjá hér. 

Lygarnar um upphaf stríðsins verða ekki að sannleika sama hve oft Kremlverjar niðurlægja sjálfa sig með því að endurtaka þær. Er sorglegt að sjá, meðal annars á samfélagsmiðlum, að Íslendingar sem ættu að teljast sæmilega upplýstir og hafa aðgang að öllum hugsanlegum upplýsingalindum hallist frekar að lygum Rússa um eðli og upphaf stríðsins en því sem er satt og rétt.

OIP-1-Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa.

Afgerandi meirihluti fólks gerir sér grein fyrir lygunum og hvernig í pottinn er búið. Ekki neinn marktækur innlendur fjölmiðill á bandi Rússa.

Umræður um innlend mál draga stundum dám af aðferðunum sem Pútin og Lavrov nota til að fegra eigin hlut vegna blóðbaðsins í Úkraínu, annaðhvort er hreinlega logið eða legið á upplýsingum til að fegra lélegan málstað.

Nefna má dæmi sem tengist fréttum á líðandi stund. Þeir sem áttu Exista á sínum tíma breyttu heiti félagsins í Klakka til að þurrka út minningar um bankahrunið. Klakki var seldur af félaginu Lindarhvoli og kauptilboði Existamanna hafnað. Þeir vilja nú rétta hlut sinn og er mál þeirra til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í tengslum við málaferlin hefur allt verið sett á annan endann vegna samantektar setts ríkisendurskoðanda frá því fyrir fimm árum. Hún er ekki birt vegna þess að ríkisendurskoðun segir um vinnuskjal að ræða og hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál sjö sinnum hafnað óskum um birtingu skjalsins.

Málsvarar Existamanna fara mikinn vegna þess í fjölmiðlum og á alþingi. Eitt er að blaðamenn óvandir að virðingu sinni fari með hálfsannleika. Annað að þingmenn geri.

Athygli vekur hve hart Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sækir að Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, bæði vegna sölu á Íslandsbanka og þessarar fimm ára gömlu samantektar um Lindarhvol. Hún sagði á Stöð 2 í gær (13. mars):

„Ég veit að formaður Sjálfstæðisflokksins vill ekki birta þessa greinargerð.“

Af hverju kýs þingmaður að tala svona? Skiptir sannleikurinn engu? Ríkisendurskoðandi vill ekki að samantektin birtist og úrskurðarnefnd sem á að gæta laga hafnar sjö sinnum að samantektin sé birt.

Það er enginn eðlismunur á þessum lygum þingmannsins og því sem Lavrov laug í Delí þótt efnislega sé ólíku saman að jafna.