5.1.2021 10:06

Lyfjastofnun gegn CBD

Hringlandahátturinn í stjórnsýslu lyfjastofnunar og ýmissa annarra opinberra aðila við afgreiðslu mála sem snerta ræktun iðnaðarhamps og notkun CBD-vara hér á landi stafar af öðru.

Nú ber það sjónarmið hátt að Lyfjastofnun Íslands hafi ekki burði til að haga sér öðru vísi en Lyfjastofnun Evrópu. Hringlandahátturinn í stjórnsýslu lyfjastofnunar og ýmissa annarra opinberra aðila við afgreiðslu mála sem snerta ræktun iðnaðarhamps og notkun CBD-vara hér á landi stafar af öðru.

Til að tekið sé af skarið vegna CBD fluttu þingmenn úr öllum þingflokkum nema VG og Miðflokknum tillögu til þingsályktunar í október 2019 undir forystu Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, þar sem segir:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að gera viðeigandi breytingar á reglugerðum, og leggja fram frumvarp, ef þess þarf, til að gera sölu á vörum sem innihalda CBD (cannabidiol) heimila í almennri sölu.“

Í grein í Fréttablaðinu í dag (5. janúar) segir Sigurður Hólmar Jóhannesson:

„CBD (Cannabidiol) er oftast unnið úr iðnaðarhampi sem er í flokki kannabisplantna, nánar tiltekið af Cannabis sativa ættinni, og fylgt hefur mannkyninu, m.a. sem lækningajurt, frá örófi alda. CBD er á meðal innihaldsefna í lyfseðilsskyldum tauga- og flogaveikilyfjum og í vísindasamfélaginu er almenn viðurkenning á jákvæðum áhrifum CBD á t.d. kvíða, streitu, svefn, minni og skapgerð, matarlyst og meltingarkerfið. Þá er m.a. staðfest þekking á jákvæðum áhrifum CBD á ýmis húðvandamál, bólgur og verki. CBD heilsuvörur eru meðal annars framleiddar sem margs konar húðvörur og alls kyns fæðubótarefni í formi olía eða hylkja, til eru CBD plástrar, sumir taka CBD í gegnum lungnaberkjurnar í formi vape-vökva, CBD er á meðal innihaldsefna í alls kyns matvöru og áfram mætti lengi telja.“

Tilefni greinar Sigurðar Hólmars er að Evrópudómstóllinn, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Sameinuðu þjóðirnar hafa nýlega endurskilgreint CBD fæðubótarefni, tekið þau úr flokki vímuefna og viðurkennt sem matvöru. Um leið er áréttað að CBD hafi á engan hátt hugbreytandi áhrif né ógni það heilsu manna með nokkrum hætti.

Dreamstime_xxl_162739067Neikvæð afstaða Lyfjastofnunar Íslands og hringlandahátturinn í stjórnsýslu hér á þessu sviði verður ekki skýrður á annan hátt en þann að með öllum ráðum sé reynt að bregða fæti fyrir að einkaaðilar, bændur, geti haft þann arð af hampræktun sem felst í að jurtin sé notuð til að framleiða CBD.

Í grein Sigurðar Hólmars segir:

„Hér á landi hefur sem betur fer tekist að rýmka CBD regluverkið örlítið á síðustu misserum. Ræktun iðnaðarhamps var loksins leyfð síðastliðið vor og sala á CBD snyrtivörum hefur einnig verið heimiluð. Á Alþingi hefur reglugerðarbreyting sem opnar fyrir sölu á CBD fæðubótarefnum, t.d. í hylkjum eða olíu til inntöku, verið tekin til umræðu en fyrirstaða hluta þingmanna verið talsverð. Vonandi mun þessi viðsnúningur alþjóðastofnana auðvelda þingheimi að hraða afgreiðslu málsins“

Okkur er talin trú um að hér sé ekki unnt að heimila notkun á COVID-19-bóluefni nema Lyfjastofnun Evrópu gefi grænt ljós. Það er álíka mikill fyrirsláttur og afstaða lyfjastofnunar í CBD-málinu. Nú getur hún alls ekki skýlt sér á bakvið ESB, WHO eða Sameinuðu þjóðirnar í því máli.