13.6.2021 10:50

Lýðræðiskraftur D-listans

Eftir hringferðina um landið í liðinni viku jukust efasemdir mínar um að skipta landinu í svona stór og að mörgu leyti innbyrðis sundurleit kjördæmi.

Prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi laugardaginn 12. júní lauk á þann veg að fjórir þingmenn flokksins í kjördæminu skipa fjögur efstu sæti listans. Alls kusu 4772 sem er veruleg aukning frá prófkjöri flokksins í september 2016 þegar kjörsóknin var 3.154.

Bjarni Benediktsson flokksformaður má vel við úrslitin una, hann fékk stuðning rúmlega 80% atkvæða í fyrsta sætið eða 3825 atkvæði (2699 atkv. í prófkjörinu 2016).

199313066_10158237924737709_4470914532823034471_nHart var tekist á um annað sætið og hörðustu stuðningsmenn þeirra sem þar börðust settu sinn mann í fyrsta sæti listans. Innan við 20 atkvæðum munaði á Jóni Gunnarssyni, ritara Sjálfstæðisflokksins, og Bryndísi Haraldsdóttur þingmanni. Hún lenti í fimmta sæti í prófkjörinu 2016 á eftir fjórum körlum. Við endanlega ákvörðun framboðslistans var ákveðið að færa Bryndísi í annað sæti listans. Nú sannaðist að hún hefur áunnið sér traust í kjördæminu.

Óli Björn Kárason hlaut fjórða sætið (þriðja sæti í prófkjöri 2016), sama sætið og hann skipaði á listanum 2016. Hann stefndi á annað sætið eins og Jón og Bryndís – átökin um sætið voru greinilega á milli þeirra og því hætta á að Óli Björn missti fótfestu og hrapaði niður listann. Hann sýndi hins vegar verulegan styrk og hélt sinni stöðu.

Nýliðar, Arnar Þór Jónsson og Sigþrúður Ármann, náðu fimmta og sjötta sæti. Vilhjálmur Bjarnason, sem fór niður í fimmta sæti á listanum 2016 eftir að hafa náð fjórða sæti í prófkjörinu, varð hins vegar ekki einn af sex efstu að þessu sinni. Á FB-síðu sinni segist hann hættur afskiptum af stjórnmálum og fer óvinsamlegum orðum um þingflokk sjálfstæðismanna. Það er miður að hann hverfi frá beinni stjórnmálaþátttöku með óbragð í munninum. Við Vilhjálmur höfum um árabil skipst á að skrifa um hugðarefni okkar í Morgunblaðið annan hvorn föstudag. Vonandi fáum við áfram inni í blaðinu.

Þegar úrslitin lágu fyrir í prófkjöri sjálfstæðismanna í september 2016 var um það rætt að enginn Hafnfirðingur væri meðal sex efstu á listanum. Sama er uppi á teningnum núna. Ekki kann ég skýringu á þessu en í sex efstu sætunum eru þrír Garðbæingar, Bjarni, Arnar Þór og Sigþrúður, Jón úr Kópavogi, Bryndís úr Mosfellsbæ og Óli Björn af Seltjarnarnesi. Skiptir þetta máli þegar listinn verður endanlega ákveðinn?

Kjördæmisráðið í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, kom saman til fundar í Grindavík laugardaginn 12. júní og ákvað D-listann hér: 1. Guðrún Hafsteinsdóttir, 2. Vilhjálmur Árnason, 3. Ásmundur Friðriksson, 4. Björgvin Jóhannesson, 5. Ingveldur Anna Sigurðardóttir. Lestina í 20. sæti rek ég síðan, en mér veittist sá heiður að vera beðinn um að skipa heiðurssæti listans.

Eftir hringferðina um landið í liðinni viku jukust efasemdir mínar um að skipta landinu í svona stór og að mörgu leyti innbyrðis sundurleit kjördæmi fyrir utan að sú skipan sem nú ríkir ýtir undir sundrung á þingi með flokksbrotum í stað þess að knýja á um að menn leiti samkomulags um ágreiningsmál innan flokka þar sem lýðræðislegar leikreglur eru í heiðri hafðar eins og í Sjálfstæðisflokknum.