18.11.2023 9:56

Lufsuleg stjórnarandstaða

Grindvíkingar standa í senn frammi fyrir köldum veruleika og óvissu um hvort hann verður enn verri. Óvissan er kannski erfiðari en veruleikinn þótt sársaukafullt sé að horfast í augu við hann.


Nú er vika liðin frá því að ástæða þótti til að velta því fyrir sér daginn fyrir flugferð frá Keflavíkurflugvelli hvort flugi yrði kannski aflýst vegna öskugoss í hafi undan Reykjanesi. Daginn fyrir flug heim aftur er óvissan sú sama. Enginn getur með nokkurri vissu vitað hvar og hvenær eldur kemur úr iðrum jarðar. Enn er því þó spáð.

Aðfaranótt laugardagsins 11. nóvember fengu Grindvíkingar fyrirmæli um að yfirgefa heimili sín. Áfall þeirra er mun alvarlegra en óvissa sem sækir að þeim sem eru á ferð og flugi. Grindvíkingar standa í senn frammi fyrir köldum veruleika og óvissu um hvort hann verður enn verri. Óvissan er kannski erfiðari en veruleikinn þótt sársaukafullt sé að horfast í augu við hann.

Við óvissuna takast menn dag frá degi. Hana kann að mega milda með framkvæmdum eða fjárhagslegum aðgerðum en kvíðinn sem henni fylgir sækir fyrst og síðast á hugann. Ýmis ráð eru einnig til að milda þjáningar hugans.

Eitt þeirra er að hætta að býsnast yfir því að örlítil skattahækkun var hluti frumvarps sem ríkisstjórnin lagði fyrir alþingi vegna hamfaranna og það samþykkti í snarhasti mánudaginn 13. nóvember. Viðlagatrygging kom til sögunnar með sérstöku gjaldi vegna gossins í Vestmannaeyjum fyrir hálfri öld. Samkvæmt lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997 var heimilað að leggja árlegt gjald á allar brunatryggðar húseignir.

Skjáskot úr vefmyndavél mbl.is.

Séð yfir Grindavík.

Í reiðipistli í garð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í sunnudagsblaði Morgunblaðsins dags. 18. nóvember segir Kolbrún Bergþórsdóttir:

„Ríkisstjórnin áttaði sig á að hún yrði að gera eitthvað sem tekið yrði eftir. Fyrsta hugsun hennar um aðgerðir spýttist út í umhverfið eins og samkvæmt forriti: Skattahækkun!“

Þessi upphrópun er furðuleg í ljósi sögunnar. Hún lýsir annaðhvort vandlætingu á því að gripið sé til sameiginlegs átaks allrar þjóðarinnar vegna náttúruhamfara eða vanþekkingu á opinberum viðbrögðum sem eru í anda samhjálpar sem rekja má allt aftur til þess tíma þegar landið byggðist og til urðu hreppar.

Kolbrún lætur eins og það sé eitthvert nýmæli að flokkar starfi saman í ríkisstjórn vegna þess að ytri aðstæður knýi þá til sameiginlegra átaka. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur vissulega tekist á við óvæntari og þyngri verkefni en margar aðrar. Heimsfaraldur sem lamaði heimsbyggðina og jarðeldar á Reykjanesi vega að þjóðarbúinu og þá er ekki rétti tíminn fyrir stjórnendur að hverfa af vettvangi.

Almennt séð verða samsteypustjórnir til vegna ytri aðstæðna. Undir þeirri stjórn sem nú situr hefur þjóðinni vegnað vel sé litið til hagsældar hennar. Forystumenn flokkanna sem mynda stjórnina ætluðu ekki að sameina þá með samstarfi sínu heldur vinna saman að umsömdum verkefnum. Flokkarnir halda fullveldi til eigin stefnumótunar. Nú þegar kjörtímabilið er hálfnað og sex ár liðin frá upphafi þriggja flokka samstarfsins er nöldur Kolbrúnar í garð ríkisstjórnarinnar ótrúlega máttlaust. Það sannar raunar að stjórnarandstaðan er mun lufsulegri en ríkisstjórnin.