Lúðurhljómur til nýrrar sóknar
Sigurður Nordal komst rétt að orði þegar hann lýsti boðskap sr. Tómasar sem lúðurhljómi til nýrrar sóknar. Greining á Ferðabók hans leiðir það vel í ljós.
Í grein sem dr. Sigurður Nordal prófessor ritar í Lesbók Morgunblaðsins 18. maí 1941 þegar 100 ár voru liðin frá andláti sr. Tómasar Sæmundssonar (1807-1841) segir um bókina Bréf Tómasar Sæmundssonar, sem gefin var út á aldarafmæli hans (1907) „að fáar bækur, sem út komu á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, hafi gagntekið Íslendinga eins og þessi bréf“. Þar hafi þjóðin komist í náin kynni við sr. Tómas og rödd hans láti ekki í eyrum „eins og daufur ómur frá fjarlægri fortíð, heldur eins og lúðurhljómur, sem brýndi til nýrrar sóknar“.
Þegar Sigurður Nordal ritar þessa grein hafði Ferðabók sr. Tómasar ekki verið gefin út en Jakob Benediktsson annaðist útgáfu hennar árið 1947. Sr. Tómasi lauk ekki ritun bókarinnar en hún lýsir hluta af menntaferð Grand tour sem hann hóf í Kaupmannahöfn árið 1832. Leið hans lá um Berlín, Vín, Róm, París og London eins og hefðbundið var en einnig sigldi hann á Miðjarðarhafi til Grikklands og Tyrklands. Kom hann til Íslands úr ferðinni árið 1834.
Hann skoðaði lista- og fornaldarsöfn, bókasöfn, náttúrusöfn, menntastofnanir, byggingar, iðnfyrirtæki, bæjarskipulag, stræti og torg, nútímalega innviði, listaverk, háskóla, leikhús o.fl. eins og dr. Marion Lerner, dósent í íslensku og menningardeild Háskóla Íslands, orðaði það í fyrirlestri sem hún hélt hjá okkur Rut að Kvoslæk í gær (25. ágúst) um efnið menntun og vísindi í þágu þjóðar, Tómas Sæmundsson og ferðabók hans. Ferðaskrif eftir heimkomu voru partur af menntaferðinni.
Hluti gesta á fyrirlestri Marion Lerner.
Þetta er annar fyrirlestur Marion um Ferðabókina hér að Kvoslæk og sýnir að þar er að finna ómetanlegan fróðleik um viðhorf menntamanns sem vildi Íslandi vel en áttaði sig á hve langt var í land að hér myndaðist félagslegt umhverfi sem stæði undir því sem hann kynntist á ferð sinni.
Sr. Sváfnir Sveinbjarnarson sem fagnaði 90 ára afmæli sínu á dögunum hlýddi á erindi Marion og gaf mér að því loknu prentað erindi sem hann flutti á 200 ára afmæli sr. Tómasar árið 2007. Þar segir í upphafi:
„En nafn hans mun þó ávallt verða tengt kirkjustaðnum og prestssetrinu Breiðabólstað í Fljótshlíð, þar sem hann þjónaði sem prestur og prófastur sína skammvinnu embættistíð, árin 1835-41, eða aðeins um tæplega 6 ára skeið. Þar lést hann langt um aldur fram – aðeins tæplega 34 ára að aldri. Líklega hefur enginn prestur setið Breiðabólstað í skemmri tíma en séra Tómas – en samt hefur hann unnið sér varanlegri orðstír og veglegri sess í þjóðarsögunni en flestir eða allir sem þar hafa komið við sögu – og má þó meðal þeirra telja Jón helga Ögmundsson, síðar biskup á Hólum, Ögmund biskup Pálsson í Skálholti, og séra Högna prófast Sigurðsson, Presta-Högna, svo aðeins fáir séu nefndir.“
Í fyrrnefndri grein eftir Sigurð Nordal segir að á sínum tíma hafi sr. Tómas ekki einu sinni verið nefndur meðal Fjölnismanna, á 19. öld var hann þjóðinni næstum óþekktur. Á einni öld, frá 1907, breyttist þetta eins og orð sr. Sváfnis sanna. Fljótshlíðingum er bæði ljúft og skylt að leggja rækt við minninguna um séra Tómas Sæmundsson á Breiðabólstað.
Sigurður Nordal komst rétt að orði þegar hann lýsti boðskap sr. Tómasar sem lúðurhljómi til nýrrar sóknar. Greining á Ferðabók hans leiðir það vel í ljós.