Losað um faraldurshöft
Leiðin út úr fjármagnshöftunum var erfið, það verður ekki síður flókið að losna undan höftum heimsfaraldursins – þrátt fyrir bólusetningu.
Einkenni umræðna hér um COVID-19-faraldurinn er tregða til að ræða opinberlega annað en nauðsyn bannreglna. Hreyfi marktækur einstaklingur því sjónarmiði að ef til vill megi skoða annað en boð og bönn er ráðist á hann í krafti bannfæringar. Að sumu leyti minna umræðurnar nú á deilurnar um leiðina út úr fjármagnshöftunum sem voru sett vegna bankahrunsins. Þau áttu að gilda í 10 mánuði eða svo en þau urðu hins vegar við lýði í um 10 ár. Um tíma var haldið að okkur að eina leiðin til að losna við þau væri að ganga í ESB.
Bresk stjórnvöld höfðu þrek til þess tiltölulega fljótt í fyrra að veðja á bóluefnaframleiðendur. Þar tóku þau rétta áhættu og nú eru Bretar í fremstu röð þegar litið er til bólusettra, um 31 milljón manna hafði um helgina fengið fyrri sprautu sem talin er veita um 80% vernd tveimur vikum eftir að hún er gefin.
Bretum er bannað að ferðast til útlanda eigi þeirr ekki brýnt erindi. Michael Gove ráðherra hefur verið falið að huga að besta úrræðinu til að tryggja fullbólusettum aukið frelsi og finna skjótustu, öruggustu og varanlegustu leiðina til eðlilegs ástands. Í dag, mánudaginn 5. apríl, kynnir Boris Johnson forsætisráðherra þjóðinni á hvern hátt stjórn hans ætlar að leiða hana út úr hafti faraldursins.
Í The Telegraph í gær varpar Michael Gove fram hugmynd um stafræn COVID-skilríki, heilbrigðisvottorð. Hann bendir á að í Ísrael þar sem hlutfallslega fleiri hafi verið bólusettir en í Bretlandi hafi „grænt skilríki“ verið notað til að hraða för í eðlilegt ástand. Græna skilríkið heimili bólusettum, þeim sem hafi nýlega læknast af veirunni eða hafi nýlega mælst neikvæðir við sýnatöku að koma saman á stöðum sem staðið hafa lokaðir mánuðum saman t.d. í leikhúsum og næturklúbbum eða á knattspyrnuvöllum.
Gove boðar að nú í apríl ætli breska ríkisstjórnin að gera tilraun með útgáfu skilríkja til bólusettra eða sýnatekinna og leyfa þeim að sækja staði sem hafa verið lokaðir. Hann segir að áður en skilríkin verði almenn verði að þreifa sig áfram og líta til margra átta. Ísraelar noti smáforrit (e. app) í snjallsíma. Skilríkjaskylda verði ekki í verslunum eða apótekum og huga þurfi að því hvert annað megi fara án þess að framvísa skilríki. Hann hvetur lesendur The Telegraph og aðra til að láta í ljós skoðun sína. Eitt sé öruggt, ekki verði heimilt að ferðast milli landa án COVID-skilríkja.
Viðbrögð Breta við áformunum um COVID-skilríkin eru víða neikvæð áður en Boris Johnson flytur ræðu sína í dag. Bent er á að til þessa hafi verið litið á heilsufar manna sem friðheilagt einkamál, sjúkraskýrslur séu varðveittar sem trúnaðarmál, en nú séu kynnt áform um að menn sýni með síma sínum að þeir séu heilbrigðir. Hvað með persónuverndina? Þá brjóti það gegn breskum hefðum og þjóðarsál að sýna skilríki um eigið heilbrigði til að fá aðgang að krá eða knattspyrnuleik. Allt bendir til spennandi ágreinings um mannréttindi.
Við munum kynnast því að leiðin út úr höftum faraldursins verður þyrnum stráð eins og leiðin úr fjármagnshöftunum. Nú fjallar dómari um hvort sóttkvía megi Íslendinga á hóteli í stað þess að leyfa þeim að dveljast heima. Hvað næst?