29.5.2020 10:30

Lönd eru opnuð skref fyrir skref

Útfærslurnar eru mismunandi eftir löndum. Einfaldast er að velja ríkisborgara landa sem hafa staðið vel að sóttvörnum og fikra sig síðan skref fyrir skref.

Í frétt á mbl.is 15. maí sagði frá efni skipunarbréfs Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til verkefnisstjórnar um sýnatöku vegna kórónuveirunnar á landamærum Íslands. Þar stóð m.a.:

„Kostnaður við sýnatöku ferðafólks á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní gæti numið allt að 50 milljónum króna á dag. Er þá miðað við að 1000 sýni verði tekin daglega og hvert þeirri kosti 50 þúsund krónur.“ Skuli sýnd send án tafar á veirufræðideild Landspítala og greining skal liggja fyrir innan fimm klukkustunda.

Ráðherrann kynnti ríkisstjórninni niðurstöður verkefnisstjórnarinnar 26. maí. Þar kemur fram að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans geti ekki tekið sýni úr nema 500 farþegum sem koma til landsins á degi hverjum. Aukin afkastageta krefjist meiri tækjabúnaðar, fleiri manna og bættrar aðstöðu deildarinnar.

Miðað við fyrirliggjandi áætlanir sé í fyrsta lagi hægt að auka afkastagetu í 1000 sýni á dag eftir miðjan júlí. Kostnaðurinn við hvert sýni, séu tekin 500 sýni á dag, er sagður tæplega 23 þúsund kr., það er 11.500.000 kr. á dag. Hvað kostar að fara í 1.000 sýni á dag skal ekki fullyrt hér en til þess þarf að gera ýmsar ráðstafanir eins og að framan greinir.

Íslensk erfðagreining (ÍE) er tilbúin að koma að þessu verkefni og má ganga að því sem vísu að kostnaðarvitund þar sé önnur en innan heilbrigðisráðuneytisins enda hneykslaðist Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, á að 50 milljón kr. kostnaðartölunni skyldi flaggað án þess að nokkrir útreikningar lægju á borðinu.

1201652Tómleg Leifsstöð. (mbl.is/Eggert Jóhannesson)

Óvissa um þetta mál er enn svo mikil enn að ógjörningur er að slá nokkru föstu. Hér eins og endranær ræðst niðurstaðan af mati á fleiri atriðum en þeim sem falla undir sóttvarnir. Stjórnvöld hljóta að bera sig saman við aðrar þjóðir.

Kýpverjar starfa til dæmis eftir 5 bls. opinberri áætlun, megi marka fréttir, til að laða til sín ferðamenn að nýju. Þeim sem kunna að sýkjast er boðin ókeypis dvöl á sérstöku sjúkrahúsi og aðstandendum jafnframt ókeypis dvöl á sérstöku hóteli. Á Kýpur verða hótel opnuð 1. júní. Níu dögum síðar verður unnt að taka þar á móti ferðamönnum. Danir og Norðmenn (og Íslendingar?) eru í hópi þeirra fyrstu sem fá leyfi til að koma til Kýpur auk t.d. ríkisborgara frá Austurríki, Slóveníu, Þýskalandi og Litháen. Frá og með 20. júní fá ríkisborgarar fleiri landa að koma til eyjunnar.

Austurríkismenn og Þjóðverjar opna sameiginleg landamæri sín 15. júní og verða hindrunarlausar ferðir milli landanna. Þá er líklegt að Austurríkismenn opni fljótlega landamæri sín gagnvart nágrannalöndunum Sviss, Liechtenstein, Tékklandi, Slóvakíu og Ungverjalandi. Flughafnir í Vín, Innsbruck og Salzburg verða opnaðar fyrir umferð með takmörkunum. Unnt verður að fá skimun á flugvellinum í Vín gegn 190 evru gjaldi, 29.500 ísl. kr. Hafi menn ekki staðfestingu fyrir að hafa reynst ósmitaður í þrjá sólarhringa fyrir komu til landsins ber þeim að fara í sjálfskipaða sóttkví.

Útfærslurnar eru mismunandi eftir löndum. Einfaldast er að velja ríkisborgara landa sem hafa staðið vel að sóttvörnum og fikra sig síðan skref fyrir skref. Hafi menn í höndum heilbrigðisvottorð frá yfirvöldum þeirra landa er ekki tekin óbærileg áhætta með því að hleypa þeim inn í landið. Vilji menn koma með því skilyrði að þeir gangist undir sýnatöku eiga þeir að greiða fyrir hana sjálfir, engin nauðsyn knýr á um að hún sé á kostnað eða í höndum ríkisins.