15.3.2020 10:31

Lokun landamæra gagnrýnd

Galdur stjórnvalda er við þessar aðstæður eins og jafnan er að finna leið sem brýtur ekki samstöðuna.

Søren Brostrøm, forstjóri Sundhedsstyrelsen í Danmörku, sagði síðdegis laugardaginn 14. mars á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn að ekki væru fyrir hendi næg heilsufræðileg rök fyrir því að lokun landamæra virki gegn smiti af völdum kórónaveirunnar. Fyrr þann sama dag ákváðu dönsk yfirvöld að stöðva komu útlendinga til Danmerkur.

Nick Hækkerup dómsmálaráðherra hefur gripið til varna fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar gegn sjónarmiðum Sundhedsstyrelsen (heilbrigðisstjórnarinnar), Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og sænskra stjórnvalda. Hann segir að „einstakar aðstæður“ séu í Danmörku auk þess liggi ekki fyrir nein gögn sem sýni að lokun landamæra hefti ekki útbreiðslu veirunnar.

65079Danska landamæralokunin kann að valda ágreiningi milli flokka á þingi en vinstri flokkarnir Enhedslisten og SF styðja ákvörðun jafnaðarmannastjórnarinnar. Morten Østergaard, forystumaður Radikale (mið-vinstri) hefur óskað eftir því að Mette Frederiksen forsætisráðherra skýri víðtæka ákvörðun ríkisstjórnarinnar betur.

Lögreglan á Suður-Jótlandi sagði að laugardaginn 14. mars hefði 608 manns verið snúið til baka við þýsku landamærin. Það er í hendi þeirra sem gæta landamæranna að leggja mat á hve brýn erindi til Danmerkur þeir eiga sem vilja komast þangað.

Margir Íslendingar í Póllandi ákváðu að halda þaðan þegar pólska stjórnin lokaði landinu, sumum tókst að ná í flugfar aðrir ætluðu að aka til Þýskalands. Minna lýsingarnar á flótta- eða hraðferðir fólks á milli landa á þessum slóðum í síðari heimsstyrjöldinni, þótt ólíku sé saman að jafna þegar litið er til ástæðunnar fyrir hættunni. Töldu Íslendingar sig þá hólpna að lokum kæmust þeir yfir dönsku landamærin á Suður-Jótlandi. Nú yrðu þeir að líkindum stöðvaðir á landamærunum nema í „brýnum erindagjörðum“.

Öllum aðgerðum og þjónustu þar við göngudeildarsjúklinga er aflýst á dönskum sjúkrahúsum frá og með mánudegi 16. mars. Þetta er gert til að starfsmenn sjúkrahúsanna fái tækifæri til að fræðast um sóttvarnabúnað og meðferð öndunarvéla.

Boðskapur Mette Frederiksen er að menn setji eigin hag til hliðar, geti þeir það, og leggi sig fram um að aðstoða þá sem þurfa mest á vernd að halda.

Bent er á að velferðarkerfið sé reist á því að hver og einn hugi að sér og sínum nánustu en ríkið hugsi um þá sem eru minni máttar og sjúkir. Það sé fyrst á hættustund þegar allir verði að standa saman sem samfélagsstyrkurinn birtist.

Á þetta reynir ekki aðeins í Danmörku heldur í öllum löndum um þessar mundir. Galdur stjórnvalda er við þessar aðstæður eins og jafnan er að finna leið sem brýtur ekki samstöðuna.