Loksins gos
Síðasta goshrina á Reykjanesskaga stóð í um 30 ár með hléum þegar Snorri Sturluson lifði og lauk henni árið 1240. Virkur aðdragandi gossins stóð nú í rúmlega eitt ár.
Við vorum minnt á Snorra Sturluson vegna gossins sem hófst við Fagradalsfjall í Geldingadal á Reykjanesi um klukkan 20.45 föstudaginn 19. mars 2021. Um 800 ára aðdragandi var að þessu gosi. Á vefsíðunni visir.is segir:
„Klukkan 21:36 hringdi kona inn á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar og velti því upp hvort gos væri mögulega hafið á Reykjanesskaga. Hún taldi sig hafa séð rauðan bjarma á vefmyndavél sem hún var að fylgjast með.
Stuttu síðar hringdi maður inn á fréttastofuna sem kvaðst vera staddur nærri gosstöðvunum. Hann sagðist einnig sjá rauðan bjarma og var nokkuð viss um að gos væri hafið.
Klukkan 21:45 birti Vísir fyrstu fréttina um að Veðurstofa Íslands væri að skoða hvort gos væri hafið við Fagradalsfjall.“
Síðasta goshrina á Reykjanesskaga stóð í um 30 ár með hléum þegar Snorri Sturluson lifði og lauk henni árið 1240. Virkur aðdragandi gossins stóð nú í rúmlega eitt ár. Mælingar urðu sífellt meiri og magnaðri á landi og í lofti, varð til orðið óróapúls til að lýsa ástandinu þegar mörg þúsund jarðskjálftar urðu á einum sólarhring. Fáeinir skjálftar voru undir lok hrinunnar yfir 5 stig að stærð og fundust þeir norður í land. Gervihnattarmyndir veittu mikla leiðbeiningu en þær bárust með hléum (sem minntu á þá staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa hálfvolga afstöðu til gervihnatta). Þrátt fyrir öfluga vakt dag og nótt með myndavélum og alla aðra tækni var það mannsauga „óbreytts“ vegfaranda sem fyrst nam bjarmann af gosinu. Tímasetningin 20.45 er fundin við lestur á tækjum eftir að gosið sást með berum augum.
Kristinn Magnússon tók þessa ævintýralegu mynd af gosinu við Fagradalsfjall að morgni laugardags 20. mars og birtist hún á mbl.is.
Í kvöldfréttum ríkisjónvarpsins klukkan 19.00 var það mat fréttastofunnar „að líkur á eldgosi [hefðu] minnkað til muna“ og Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur sagði „ekki von á eldgosi alveg á næstunni“.
Þetta sannaði aðeins hve erfitt var að sjá það fyrir sem gerðist skömmu síðar þegar hraun streymdi upp úr jörðunni á nokkur hundruð metra sprungu og við tóku viðvaranir um hættu af gasmengun þegar fólk streymdi í bílum út á Reykjanesbraut í von um að verða vitni að gosi í fæðingu.
Að morgni laugardags 20. mars bárust fréttir um að Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, teldi gosið „óttalegan ræfil“ Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur kallaði gosið ræfilslegt. Víðir Reynisson stóð vaktina á vegum almannavarna og sagði gosið „pínulítið“.
Hér er myndband frá Landhelgisgæslu Íslands (lhg.is). Uppfært 12. 17
Enginn veit í raun hvernig gosið þróast.
Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði 18. mars á ruv.is:
„Þetta er auðvitað ekki alveg sambærilegt við Kröfluelda. Þar var greinilegt kvikuhólf og endurtekin kvikuhlaup út frá þessu kvikuhólfi. En miðað við það sem er þekkt um Reykjanesskagann er alveg hugsanlegt að það sé að hefjast núna tímabil endurtekinnar virkni þar sem kvika muni fyllast á nýtt og nýtt kerfi á Reykjanesskaganum. Í Kröflueldum er þetta 15 ára tímabil með hléum þar sem er mikil skjálftavirkni, kvikuvirkni og eldgos. Það er alveg hugsanlegt að við séum að ganga inn í slíkt tímabil.“