31.8.2020 9:34

Løkke sár og reiður

Nú ári eftir afsögn sína getur Lars Løkke Rasmussen ekki enn hamið reiði sína vegna framkomu í sinn garð eins og fram kom í löngu viðtali í Jyllands-Posten í gær (30. ágúst)

Fyrir áhrifamikla stjórnmálamenn getur verið erfitt að hverfa úr forystusætinu. Dæmin um ágreining þeirra við eftirmenn sína eru fjölmörg. Þetta gerðist til dæmis í Þýskalandi eftir að Angela Merkel tók við forystu meðal kristilegra demókrata, í CDU-flokknum, eftir afsögn Helmuts Kohls.

Árið 2000 sagði Kohl af sér sem heiðursforseti CDU þegar forysta flokksins snerist harkalega gegn honum og sakaði hann um að „bregðast skyldum sínum“ með því að neita að segja frá hverjir veittu honum leynilegan fjárstuðning. Áður hafði Kohl tapað kanslaraembættinu fyrir Gerhard Schröder, leiðtoga jafnaðarmanna, SPD.

Lars Løkke Rasmussen (56 ára) var leiðtogi Venstre-flokksins í Danmörku og leiddi hann sem forsætisráðherra í þingkosningum 6. júní 2019. Hann tapaði fyrir Jafnaðarmannaflokknum og Mette Frederiksen varð forsætisráðherra. Hann sagði síðan af sér sem flokksformaður vegna þrýstings frá forystu flokksins 31. ágúst 2019.

Plus-loekke-lufter-tanker-om-politisk-genfoedselLars Løkke Rasmussen

Nú ári eftir afsögn sína getur hann ekki enn hamið reiði sína vegna framkomu í sinn garð eins og fram kom í löngu viðtali í Jyllands-Posten í gær (30. ágúst) sem birtist í tilefni af því að í dag koma út endurminningarþættir Løkkes þar sem hann gerir upp við flokkinn. Hann segist ekki vita hvort hann eigi að sætta sig við að sitja áfram áhrifalaus og einangraður í þingflokki Venstre, hugsa sér til hreyfings í flokknum eða á annars staðar eða segja að fullu skilið við stjórnmálin.

Bókin ber titilinn Om de fleste – og det meste og þar er boðuð önnur stefna en Jakob Ellemann-Jensen, eftirmaður Løkkes á formannsstólnum, boðar um hvernig Venstre eigi að komast að nýju í stjórnarforystu. Ellemann-Jensen vill að stefnt sé að sigri „bláu blokkarinnar“, það er mið-hægriflokkanna, og stjórnað í krafti 90 atkvæða þeirra.

Fyrir kosningarnar 2019 útilokaði Løkke ekki stjórn með jafnaðarmönnum. Hann vildi brjóta upp „bláu blokkina“ til að halda völdum en varð ekki að ósk sinni. Nú gengur hann ekki eins langt í boðskap sínum um að Venstre fari yfir miðjulínuna til vinstri, stofna eigi til samstarfs við Radikale venstre.

Viðbrögðin við nýju bókinni snúast minnst um efnisþætti hennar en nær einvörðungu um stöðu Løkkes sjálfs og í fljótu bragði má draga þá ályktun af viðhorfum sem fram koma hjá áhrifamönnum innan Venstre að þeim finnst dapurlegt að flokksleiðtoginn fyrrverandi hafi valið sér þetta hlutskipti. Hann eigi einfaldlega að draga sig í hlé.

Søren Gade var varnarmálaráðherra hjá Løkke en situr nú sem fulltrúi Venstre á ESB-þinginu. Hann segir:

„Hann var framúrskarandi forsætisráðherra Danmerkur og Venstre í mörg ár og árangur hans ber þess merki. Það er gremjulegt að biturleikinn vegna síðasta árs skuli varpa skugga á árangur Lars. Ákveði hann að taka sér nýtt pólitískt verkefni fyrir hendur finnst mér það leiðinlegur endir á glæsilegum stjórnmálaferli.“