Løkke og leiðtogalögmálið
Úrsögnin snýst- ekki um stjórnmál eða stefnu heldur viðbrögð leiðtoga sem telur flokk sinn sýna sér óvirðingu.
Engum sem les bókina sem Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi formaður danska Venstre-flokksins og forsætisráðherra, sendi frá sér síðsumars 2020, Om de fleste og det meste, kemur á óvart að hann segi skilið við flokk sinn.
Lars Løkke Rasmussen var flokksfélagi í Venstre í 40 ár. Hann var formaður flokksins frá 2009 til 2019. Hann sagði af sér formennsku sumarið 2019 í framhaldi af lokuðum fundum í framkvæmdastjórn og aðalstjórn flokksins. Løkke lýsti þá mikilli óánægju með að hann fengi ekki að leggja tillögur sínar um nýja stefnu og verkefni Venstre fram á landsfundi svo að flokksmenn gætu þar ákveðið hvort þeir vildu hann áfram formann eða ekki.
Lars Løkke Rasmussen kynnir endurminninga- og uppgjörsbók sína síðsumars 2020.
Bókin frá því í fyrra er í senn endurminninga- og uppgjörsbók við þá í Venstre sem Løkke taldi bregðast sér. Hann segir um frekari stjórnmálaafskipti sín „ikke duer til at være halvt med. Enten må jeg acceptere, at den politiske dør er lukket bag mig, eller må jeg slå den ind igen.“ Fyrir sig dugi engin hálfvelgja. Annað hvort verði hann að sætta sig við að segja skilið við stjórnmálin eða láta til skarar skríða að nýju. Nú er spurt hvort hann stofni nýjan flokk.
Eftir að Løkke tilkynnti á Facebook síðdegis á nýársdag að hann hyrfi úr flokknum segja stjórnmálaskýrendur réttilega að málið snúist ekki um stjórnmál eða stefnu heldur séu þetta viðbrögð manns sem telji flokk sinn sýna sér óvirðingu.
Tímasetning úrsagnar Løkkes er ekki tilviljun. Hún kemur sér einstaklega illa á þessari stundu fyrir Jacob Ellemann-Jensen, eftirmann Løkkes á formannsstóli í Venstre, sem glímir nú við viðkvæman vanda eftir að Inger Støjberg sagði af sér varaformennsku í flokknum, Jacob Ellemann hafi brugðist sér vegna hugsanlegs landsdómsmáls á hendur henni fyrir misráðnar ákvarðanir í útlendingamálum þegar hún var ráðherra.
Í upphafi nýs árs eru áhugamenn um dönsk stjórnmál vitni að miklu flokksdrama í Venstre, stærsta stjórnarandstöðuflokknum, þegar vanlíðan fyrrverandi flokksformanns brýst fram á þennan hátt. Løkke er alls enginn stuðningsmaður Støjberg þótt hann telji flokkinn hafa sýnt henni óvirðingu – henni hafi eins og sér verið hafnað fyrir luktum dyrum.
Sambærilegt drama og innan Venstre blasir nú við öllum heiminum í Washington þar sem Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, og hörðustu fylgismenn hans reyna að rústa stoðum flokks repúblikana og trú manna á framkvæmd lýðræðislegra kosninga í Bandaríkjunum við brottför Trumps. Hann hugsar eins og Løkke fyrst og síðast um sjálfan sig, flokkurinn sýni sér ekki þá sæmd sem hann eigi skilið.
Hvort sem flokksleiðtogar eru settir af bakvið luktar dyr, í almennum kosningum, í opnum átökum á flokksþingi eða þeir ákveða sjálfir að hætta kemur ekkert í veg fyrir að þeim finnist sér sýnd óvirðing og þeir láti eigin reiði og vanmáttarkennd bitna á gamla flokknum eða forystumönnum hans. Leiðtogarnir fyrrverandi vita best sjálfir hve erfitt er að bregðast við þegar þessu beitta vopni er brugðið á loft. Þetta er hins vegar eitt af dapurlegum lögmálum stjórnmálanna.