14.2.2023 10:18

Lokaorðið verði í hæstarétti

Nú tekur nýr sáttasemjari við deilu Eflingar og SA. Hefur hann ekki frjálsar hendur?  Hann geti sagt sig óbundinn af samningi um að áfrýja ekki dómi landsréttar?

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu mánudaginn 13. febrúar að forráðamönnum Eflingar væri ekki skylt að afhenda ríkissáttasemjara kjörgögn sem hann taldi nauðsynlegt að fá til að efna mætti til almennrar atkvæðagreiðslu um löglega miðlunartillögu í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar.

Sagði í dómi landsréttar að ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur kvæðu ekki á um heimild ríkissáttasemjara til umráða yfir kjörskrá Eflingar heldur bentu lögskýringargögn jafnframt eindregið til þess að vilji alþingis hefði ekki staðið til þess að hann fengi slíkan aðgang. Myndi lögskýring sem kvæði á um að hann fengi slíkan aðgang þannig beinlínis ganga gegn vilja löggjafans.

Skýrara verður það varla en kemur á óvart að með því að neita að afhenda kjörskrá sé unnt að hindra félagsmenn Eflingar í að taka afstöðu til tillögu sem miðar að því að tryggja þeim sambærileg kjör og öðrum.

1393620Þegar kjörskrármálið var rekið fyrir héraðsdómi reyndu félagar í Eflingu að hafa áhrif á dómarann með mótmælaspjöldum í dómhúsinu (mynd mbl.is/Kristinn Magnússon).

Áður en Efling áfrýjaði málinu samdi ríkissáttasemjari um það við forráðamenn félagsins að hann mundi ekki áfrýja til hæstaréttar, tapaði hann málinu í landsrétti.

Af þessu tilefni sagði Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl. og fyrrverandi hæstaréttardómari, í Fréttablaðinu laugardaginn 11. febrúar að ríkissáttasemjari hefði sem embættismaður íslenska ríkisins „enga heimild til að afsala sér dómstólavernd“. Ráðlagði Jón Steinar ríkissáttasemjara að lýsa yfir að hann gæti „ekki staðið við svona samkomulag“.

Landsréttur sneri við héraðsdómi sem sagði Eflingu skylt að afhenda kjörskrána. Tvær gagnstæðar niðurstöður á tveimur dómstigum vegna viðkvæmrar kjaradeilu og tilheyrandi skæruhernaðar á vegum Eflingar til að valda sem mestum skaða með verkföllum fámennra hópa félagsmanna sinna hrópa á að málið fari fyrir öll dómstigin þrjú og hæstiréttur eigi lokaorðið.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur sagt sig frá kjaradeilu Eflingar og félagsmálaráðherra staðfest afsögn hans við mikinn fögnuð formanns Eflingar sem krefst þess raunar að Aðalsteinn hverfi alfarið úr embætti sínu.

Miðlunartillaga Aðalsteins er lögmæt bæði héraðsdómur og landsréttur eru sammála um það. Spyrja má: Þarf sáttasemjari kjörskrá til að boða til atkvæðagreiðslu um hana? Nægir ekki að hann boði til kjörfundar? Það sé á ábyrgð aðila deilunnar að sækja hann.

Nú tekur nýr sáttasemjari við deilu Eflingar og SA. Hefur hann ekki frjálsar hendur? Hann geti fallið frá miðlunartillögunni sem Aðalsteinn lagði fram? Hann geti sagt sig óbundinn af samningi um að áfrýja ekki dómi landsréttar?

Úr því að deila Eflingar og ríkissáttasemjara þróaðist á þann veg að Efling kaus að reka mál sitt fyrir dómstólum ætti félaginu að vera ljúft að hlíta því að málið fari alla dómstólaleiðina og þar með í hæstarétt.