28.4.2018 16:41

Lokadagur undir sjávarmáli

Í stórum dráttum má því segja að síðasti dagur okkar í þessari fróðlegu og vel heppnuðu ferð hafi allur verið undir sjávarmáli.

Lokadagur Jerúsalem-ferðar Minja og sögu var ekki síður fróðlegur en fyrri dagarnir þrír. Dagskráin breyttist frá því sem kynnt hafði verið vegna þess að flóðin á fimmtudag urðu til þess að vegir til Masada-virkisins við suður enda Dauðahafs rofnuðu og vegna sabbat sem hófst um klukkan 18.00 í gær og lýkur ekki fyrr en 19.15 í kvöld var ekki unnt að ljúka viðgerð á veginum. 

Sabbatinn hefur meðal annars í för með sér að kaffivélar í morgunverðarsal hótelsins eru lokaðar og ekki allar lyftur í hótelinu eru virkar. Ekki má tengja neitt tæki rafmagni og sumar götur í hverfum bókstafstrúarmanna eru lokaðar hér í Jerúsalem.

IMG_6017Baðferð í Dauðahafið.

Þegar ferðast er um Ísrael ber að hafa í huga að landið er aðeins um 20.000 ferkílómetrar, um fimmtungur Íslands. Það tók því innan við klukkutíma að aka frá Jerúsalem til norður enda Dauðahafsins sem er rúma 300 m undir sjávarmáli. Þar flýtur maður vegna þess hve saltið er mikið í vatninu.

IMG_6027Frá rústum Essena skammt frá Dauðahafinu,

Þaðan ókum við til Qumran þar sem Dauðahafsandritin fundust og fræddumst um Essenana. Þeir eru fyrirmynd munka og einsetumanna en athygli vekur hve mikla áherslu þeir lögðu á að baða sig þarna í eyðimörkinni til að tryggja að þeir væru bæði hreinir að utan sem innan í einlífi sínu. Grafin hefur verið upp byggð þeirra sem unnt er að skoða og fyrir ofan hana eru hellarnir sem Dauðahafshandritin fundust.

IMG_6036Beðið eftir skírn í ánni Jórdan,

Talið er að Jóhannes skírari hafi öðlast rétt til að ganga í reglu Essena en yfirgefið hana og tekið til við að skíra þá sem áttu leið á lykilvaði yfir ána Jórdan og þangað héldum við næst og urðum vitni að því þegar fólk lét skírast í ánni. Þar voru sálmar sungnir og mikil helgi yfir öllu. Áin er landamæri milli Ísraels og yfirráðasvæðis Paleistínumanna og vorum við Ísraelsmegin.

IMG_6053Séð yfir Jeríkó frá fjalli freistingarinnar.

Frá ánni ókum við inn í Jeríkó sem er meðal elstu borga heims og lýtur stjórn Palestínumanna. Frá borginni tókum við kláf upp í fjallið þar sem Satan freistaði Jesú. Við litum yfir eyðimörkina sem við honum blasti. Þetta er eini kláfurinn veröldinni sem flytur fólk upp í fjall án þess að fara nokkru sinni upp fyrir sjávarmál. Við komumst í 233 m undir sjávarmáli.

Í stórum dráttum má því segja að síðasti dagur okkar í þessari fróðlegu og vel heppnuðu ferð hafi allur verið undir sjávarmáli þótt sólin hafi skinið og vermt okkur geislum sínum.