5.7.2023 11:16

Lokadagur leiðangurs með Hlédísi

Lokadagur okkar Hlédísar í leiðangri okkar til sex sveitarfélaga frá Dölum um Strandir til Húnaþings vestra hófst á heimsókn til Urriðarár í Miðfirði.

Lokadagur (þriðjudagur 4. júlí) okkar Hlédísar í leiðangri okkar til sex sveitarfélaga frá Dölum um Strandir til Húnaþings vestra hófst á heimsókn til Urriðarár í Miðfirði þar sem þau búa Dagbjört Diljá Einþórsdóttir, búfræðingur úr Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 2014 og Ólafur Rúnar Ólafsson vélvirki.

Þau höfðu áhuga á að stunda búskap og keyptu jörðina 1. janúar 2015 af óskyldum aðilum. Þau höfðu fyrir tilviljun frétt af því að jörðin væri til sölu. Þau komu þangað fyrst sumarið 2014 og voru þar með fyrri ábúendum allt sumarið og haustið 2014.

Fjárstofninn var góður og lömb væn. Þau keyptu um 500 fjár en voru með um 700 í apríl 2023 þegar sagt var á ruv.is:

„Riða greindist í fyrsta sinn í svokölluðu Miðfjarðarhólfi í Húnaþingi vestra fyrr í mánuðinum, á bænum Bergsstöðum. Aflífa þurfti allt fé, hátt í 700 fjár. Riða var svo staðfest á nágrannabænum Syðri-Urriðaá fyrir helgi og þar verður einnig skorið niður, um 720 fjár.“

Riða greindist í einni kind en yfirdýralæknir krafðist þess að öll hjörðin yrði felld.

Í fréttinni sagði einnig:

„Bændur í Húnaþingi vestra kölluðu eftir því í gær [17. apríl] að reglugerð um riðuveiki yrði endurskoðuð. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði því miður enga önnur (svo!) leið færa en að skera fé þar sem riða greinist, enn sem komið er. Það taki tíma að dreifa erfðaefni úr hrútum sem bera verndandi arfgerð gegn riðu.“

IMG_7586Í eldhúsinu á Urriðaá: Dabjört Diljá og Ólafur Rúnar.

Bændurnir á Urriðaá vissu að hluti hjarðar þeirra var með verndandi erfðaefni gegn riðu og vildu að þeim hluta hennar yrði hlíft. Óskirnar voru að engu hafðar. Eina sorpbrennsla landsins var biluð og þurftu hjónin á Urriðaá að finna með aðstoð sveitarstjórnar önnur úrræði til að ganga endanlega frá þeim og niðurstaðan er sú að urða hræin.

Þessi saga er lengri en hér verður rakið. Dagbjört Diljá og Ólafur Rúnar ætla ekki að bregða búi heldur snúa sér að öðru þar til þau geta hafið sauðfjárbúskap að nýju. Þeim er ekki auðveldað að láta þau áform rætast vegna þess að með mál þeirra af opinberri hálfu er farið eftir reglugerð frá 2001sem miðaði að því að auðvelda sauðfjárbændum að fella bústofn sinn og snúa sér að öðru.

Við lukum ferðinni í ráðhúsinu á Hvammstanga þar sem við ræddum við sveitarstjórnarmenn.

Hótelið á Laugarbakka í Miðfirði er fyrsta flokks og einnig matstaðurinn Sjávarborg á Hvammstanga. Ferðamenn á leið um þessar slóðir ættu að líta til þess!

Hér verða myndir látnar tala:

IMG_7588Hér erum við að Neðri-Fitjum í Fitjadal. Á myndinni eru frá vinstri er Gréta Karlsdóttir, húsfreyja Neðri-Fitjum, hjónin Stella Dröfn Bjarnadóttir og Jóhaanes Geir Gunnarsson, bændur Efri-Fitjum, Magnús Magnússon sem var leiðsögumaður okkar Hlédísar, og Gunnar Þorgeirsson, bóndi Neðri-Fitjum. Þau standa saman að stóru sauðfjárbúi og landsfrægri hrossarækt.

IMG_7594

IMG_7596

KIDKA á Hvammstanga er ein stærsta prjónastofa landsins og framleiðir ullavoðir úr um 20 tonnum af íslenskri ull á ári. Myndin er úr verslun Kidka við hlið prjónastofunnar. Fjöldi erlendra ferðamanna var þar þegar okkur bar að garði að kaupa beint frá framleiðenda.  Vörurnar eru seldar um heim allan á netinu. Ullin á vaxandi vinsældum að fagna.

IMG_7592Séð yfir á tangann á Hvammstanga. Í húsinu með rauðleita gaflinum er veitingastaðurinn Sjávarborg á efri hæð en Selasetrið á þeirri neðri.

Úr veitingasalnum í Sjávarborg en þar hittum við Hrund Jóhannsdóttur sem stendur fyrir rekstrinum.

IMG_7598Selasetur Íslands á Hvammstanga, eins og sjá stendur yfir dyrunum: Rostungurinn. Hvort hann leggur leið sína á Hvammstanga kemur í ljós en honum verður örugglega vel tekið eins og öðrum sem þangað leggja leið sína.