12.1.2018 11:26

Lokaáfanginn undir forystu Angelu Merkel

Líklegt er að þetta verði síðasta ríkisstjórnin undir forystu Angelu Merkel og innan raða CDU hefjist nú umræður um eftirmann hennar sem taki við stjórnartaumum í tæka tíð til að sanna sig fyrir næstu þingkosningar.

Kosið var til þýska þingsins 24. september 2017 en það var ekki fyrr en 11. janúar 2018 sem stjórnarflokkarnir kristilegir og jafnaðarmenn komu sér saman um 28 bls. texta að nýjum stjórnarsáttmála sem lagður verður til grundvallar við formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Boðað hefur verið að niðurstaða þeirra verði kynnt jafnaðarmönnum (SPD) á flokksþingi í Bonn 21. janúar.

Í sjónvarpsumræðum að kvöldi kjördags blastin óvildin frá Martin Schulz, leiðtoga SPD, í garð Angelu Merkel við öllum áhorfendum. Hann sagðist alls ekki fara í stjórn með Merkel og fór næsta háðulegum orðum um hana.

Frá vinstri Horst Seehofer CSU, Angela Merkel CDU og Martin Schulz SPD.

Nú hafa Angela Merkel fyrir hönd CDU, Horst Seehofer fyrir hönd CSU í Bæjarlandi og Martin Schulz fyrir hönd SPD öll mælt með því að stigið verði næsta formlega skrefið í átt að endurnýja umboð „stóru samsteypustjórnarinnar“, það er ríkisstjórnar CDU/CSU og SPD.

Sunnudaginn 7. janúar settust 39 fulltrúar flokkanna þriggja niður til að kanna hvort þeir gætu komið sér saman um málefnasamning. Stíft var fundað og 11. janúar lá sem sagt fyrir 28 bls. skjal. Það sem lekið hefur um efni bendir til að deilt hafi verið um skattamál og útlendingamál.

Niðurstaðan er sögð hafa verið að halda hæsta skattþrepi í 42% en ekki fara með það í 45% eins og jafnaðarmenn vildu. Þá hafi verið ákveðið að setja þak á fjölda þeirra sem vilja nýta sér fjölskyldusameiningu með vísan til þess að einhver úr fjölskyldunni hafi þegar sest að í Þýsklandi með leyfi yfirvalda.  Sett verður þak á fjölda farandfólks til landsins ár hvert.

Ýmis félagsleg úrræði setja svip sinn á drögin að stjórnarsáttmála t.d. húsnæðismál, aðstoð við vanþróuð héruð innan Þýskalands, lífeyrismál láglaunafólks, einkum mæðra. Þá er gert ráð fyrir að árið 2030 verði 65% raforku framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Eftir að Merkel mistókst að mynda fjögurra flokka stjórn með CSU, frjálsum demókrötum (FDP) og græningjum voru tveir kostir: framhald samstarfs stóru flokkanna eða kosningar í mars. Stóru flokkarnir fóru báðir illa út úr kosningunum í september þar sem nýi þjóðernisflokkurinn, Alternativ für Deutschland (AfD), var sigurvegari með þriðja stærsta þingflokkinn.

Jafnaðarmenn notuðu það meðal annars sem ástæðu til að standa utan stjórnar að þeir vildu ekki gefa AfD sviðið sem stærsta stjórnarandstöðuflokknum.

Pólitískur slagkraftur Angelu Merkel hefur minnkað undanfarna mánuði vegna stjórnarkreppunnar. Það var jafnaðarmaðurinn Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti sem knúði Martin Schulz til að skipta um skoðun og hefja samstarf við Merkel.

Líklegt er að þetta verði síðasta ríkisstjórnin undir forystu Angelu Merkel og innan raða CDU hefjist nú umræður um eftirmann hennar sem taki við stjórnartaumum í tæka tíð til að sanna sig fyrir næstu þingkosningar.