21.10.2021 9:41

Lögreglustjóri gleður fallkandídata

Að þetta leiði sjálfkrafa til þess að ógilda verði kosningarnar í kjördæminu er af og frá, þá væri rannsóknarstarfi þingnefndarinnar sjálflokið og lögreglustjórinn á Vesturlandi kominn í hennar stað.

Í aðdraganda kosninga leggja frambjóðendur til þings land undir fót til að hitta kjósendur og leita eftir stuðningi þeirra. Að kosningum loknum fá þingmenn mörg tækifæri til að kynnast mannlífi og atvinnustarfsemi. Það heyrir hins vegar til sérstakra tíðinda að þingnefnd fari í vettvangsgöngu og rannsóknarleiðangur til að kanna hvernig staðið var að talningu atkvæða.

Þingnefndin undir formennsku Birgis Ármannssonar sem undirbýr afgreiðslu kjörbréfa nýkjörins þings brá sér í Borgarnes þriðjudaginn 19. október og kynnti sér aðstæður á lögreglustöð staðarins og í hótelinu þar sem atkvæði voru talin. Að þingnefnd stundi slíka rannsóknarvinnu er mjög óvenjulegt. Ber það með sér að þingmenn treysti ekki áliti kunnáttumanna. Er það þó venja þingsins þegar óskað er eftir umsögnum um mál eða kallað á sérfræðinga til funda. Spurning er hvort þessi nýja útfærsla á rannsóknarstörfum þingmanna við úrlausn mála skapar fordæmi. Hitt er þó ljóst að hvað sem rannsóknar- og skoðunarferðum líður er alið á tortryggni í garð alls sem fram kemur af þeim sem sjá sér hag af því.

1304089Birgir Ármannsson kjörbréfanefndarformaður og nefndarmenn í rannsóknarferð í Borgarnesi (mynd mbl.is Theódór Kr. Ólafsson).

Helstu gæslumenn eigin hagsmuna eru þingmannsefnin sem eygðu sæti í þinghúsinu sem jöfnunarmenn áður en lokatölur komu úr Borgarnesi. Þau sem hlut eiga að máli eru að vísu ekki alveg samstiga. Einhverjir vilja að ranga niðurstaðan gildi aðrir segja að það verði bara að kjósa aftur, jafnvel í landinu öllu.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi sektaði yfirkjörstjórn NV-kjördæmis fyrir að standa ekki rétt að meðferð kjörgagna, þau hafi staðið án innsiglis í talningarsal í Hótel Borgarnesi. Ágreiningur er um hve mikil áhætta var tekin með því. Yfirkjörstjórnarmenn neita að greiða sektina og hefur það mál væntanlega sinn gang innan réttarkerfisins.

Að þetta leiði sjálfkrafa til þess að ógilda verði kosningarnar í kjördæminu er af og frá, þá væri rannsóknarstarfi þingnefndarinnar sjálflokið og lögreglustjórinn á Vesturlandi kominn í hennar stað.

Á fyrsta stigi þessa rannsóknamáls sem verður sífellt undarlegra var látið eins og þingmenn væru vanhæfir til að fara með það vald sem stjórnlög fela þeim. Tilgangslaust þref um vanhæfi þingmanna stóð í nokkurn tíma. Sá sem talaði þá hæst um vanhæfið var Magnús Davíð Norðdahl frá Pírötum, hann náði ekki kjöri vegna reiknilíkansins og skorts á atkvæðum, sama gildir um þau Rósu Björk Brynjólfsdóttur frá Samfylkingu, Guðmund Gunnarsson frá Viðreisn og Karl Gauta Hjaltason frá Miðflokknum. Þau eygja nú von fyrir sig með sektarákvörðun lögreglustjóra Vesturlands. Ranga niðurstaða talningarinnar eigi að gilda eða bara að kjósa upp á nýtt, helst á öllu landinu.

Guðmundur Gunnarsson telur sig í leit að réttlætinu, verði ekki orðið við kröfu hans um þingsæti sé opnað „pandorubox“ og enginn átti sig á „hvernig það mun skella framan í andlitin á okkur“. Í orðunum felst hótun. Um hvað í ósköpunum? Í krafti hvers hótar þessi vanhæfi fallkandídat?