Logið upp á Guðlaug Þór í Moskvu
Það er fullt tilefni til að kalla rússneska sendiherrann á teppið á Rauðarárstígnum.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, stofnaði
til umræðu um veru Íslands í NATO á alþingi fimmtudaginn 11. mars. Tilgangur
þingmannsins var að viðra afdankaðar skoðanir VG gegn NATO. Segja má að í þeim
birtist leifar kalda stríðsins í umræðum um íslensk öryggis- og varnarmál. VG
er enn statt á sama stað og fyrir hrun Sovétríkjanna í afstöðu sinni og kemst
ekki þaðan.
Mikhail V. Noskov, sendiherra Rússa, afhenti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, trúnaðarbréf í lok árs 2020 (mynd forseti.is).
Í tilefni af umræðunum birti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra grein um gildi NATO-aðildarnnar fyrir Ísland og sagði meðal annars:
„Kjarnorkuafvopnun er mikilvægur þáttur í sögu bandalagsins [NATO]. Þegar kalda stríðið stóð sem hæst voru yfir sjö þúsund bandarísk kjarnavopn í Vestur-Evrópu en eru nú um 150- 200. Markmið Atlantshafsbandalagsins er að heimurinn verði kjarnavopnalaus og bandalagið vinnur staðfastlega að því að skapa skilyrði fyrir því. Á sama tíma hefur Rússland þróað nýjar tegundir kjarnavopna og endurnýjað þau sem fyrir eru. Frekari fækkun kjarnavopna þarf að taka mið af alþjóðlegu öryggisumhverfi. Á meðan Rússland, Kína, Norður- Kórea og fleiri ríki búa yfir kjarnavopnum verða bandalagsríkin að gera það líka. Einhliða kjarnorkuafvopnun er firring og glapræði. Einungis með gagnkvæmri afvopnun er öryggi tryggt.“
Í Morgunblaðinu í dag (19. mars) birtist lítil fylgiklausa við frétt um reiði Rússa í garð Bidens Bandaríkjaforseta vegna ummæla hans um Pútin sem sagt var frá hér á þessum stað í gær. Í klausunni segir að María Zakharova, talsmaður Sergeis Lavrovs, utanríkisráðherra Rússlands, hafi sent Guðlaugi Þór tóninn á blaðamannafundi í Moskvu 18. mars og andæft meintri staðhæfingu hans í Morgunblaðs-grein 11. mars um að ríki Atlantshafsbandalagsins hafi komið sér upp kjarnorkuvopnum sem svari við kjarnorkuvígvæðingu Sovétríkjanna sálugu.
Í samtali við Morgunblaðið segist Guðlaugur Þór koma af fjöllum og kannast ekki við að í greininni hafi hann sagt nokkuð sem falli að orðum Zakharovu.
Eins og tilvitnunin í grein utanríkisráðherra hér að ofan sýnir vék utanríkisráðherra ekki að Sovétríkjunum þegar hann ræddi um kjarnorkuvopn heldur benti hann á að Rússar hefðu undir stjórn Pútins þróað nýjar tegundir kjarnavopna og endurnýjað eldri gerðir vopna frá Sovéttímanum. Þessi þróun rússneska heraflans ætti ekki að koma Rússum í opna skjöldu því að Vladimir Pútin hefur hvað eftir annað gortað sig af henni.
Að Ísland sé komið á þennan þátt undir smásjá rússneska utanríkisráðuneytisins og farið sé með rangfærslur um skoðanir utanríkisráðherra Íslands á blaðamannafundum ráðuneytisins er í samræmi við ódiplómatískan málflutning rússneskra stjórnvalda í garð ráðherra og ríkisstjórna á Norðurlöndunum almennt. Rangfærslunum fylgja að jafnaði duldar hótanir.
Málatilbúnaður rússneska utanríkisráðuneytisins er ef til vill fyrirboði þess að Rússar ætli að beita sér vegna þingkosninganna hér á landi 25. september 2021. Það er fullt tilefni til að kalla rússneska sendiherrann á teppið á Rauðarárstígnum og andmæla opinberum lygum ráðuneytis hans um utanríkisráðherra Íslands.