Logi sakar VG um hræsni
Þögnin um utanríkis-, öryggis- og varnarmál í ályktunum landsfundar VG stafar ekki af gleymsku heldur af djúpstæðum vanda flokks sem skortir þrek til að gera upp við úrelta fortíðarstefnu.
Hér á síðunni var þess getið 27. október 2022
að líklega mundi systurflokkur Vinstri-grænna (VG) í Noregi, Sosialistisk Vensterparti
(SV), breyta um NATO-stefnu á landsfundi sínum árið 2023. Fundurinn var haldinn
17. til 19. mars sl., sömu dagana og VG hélt landsfund sinn á Akureyri án þess
að álykta einu orði um utanríkis- eða öryggis- og varnarmál eins og rakið var hér
á síðunni í gær.
Að Noregur fari úr NATO er ekki lengur stefna SV, systurflokks VG. Hér skipar VG sér enn í flokk öfgamanna eins og þeirra sem sjást á mydinni fyrir framan þinghúsið í Osló.
Annað var uppi á teningnum hjá SV. Í ályktanasafni fundar flokksins má finna langa ályktun um utanríkismál þar sem færð eru rök fyrir stefnubreytingu flokksins þegar hann hættir að berjast gegn aðild Noregs að NATO.
Þar segir að SV hafi lengi talið að norrænt samstarf í öryggismálum með gagnkvæmri öryggistryggingu þjónaði Noregi best. Umsókn Svía og Finna um aðild að NATO skapi nýja stöðu í öryggismálum. Nú séu forsendur til að treysta enn frekar norrænt varnarsamstarf og þær beri að nýta. SV vilji frekar vinna að þessu en að berjast fyrir úrsögn úr NATO auk þess sem innan bandalagsins megi vinna ýmsum baráttumálum flokksins í öryggismálum sem miða að því að minnka áhrif Bandaríkjanna, breyta kjarnorkustefnu NATO og standa gegn íhlutun í nafni NATO utan bandalagssvæðisins.
Í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra á alþingi þriðjudaginn 21. mars vék Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að þessari stefnubreytingu SV. Hann spurði Steinunni Þóru Árnadóttur, málsvara VG í umræðunum, hver væri afstaða hennar „til verunnar í NATO og hver er afstaða Vinstri grænna til verunnar í NATO?“
Steinunn Þóra sagði að hún og nokkrir aðrir þingmenn VG hefðu setið hjá þegar alþingi samþykkti umsókn Svía og Finna að NATO af því að þau teldu „ekki vera til gagns að stækka hernaðarbandalag sem við viljum ekki vera í. [...] Við [VG] teljum að við eigum að hætta að vera aðilar í hernaðarbandalaginu NATO.“
Vegna svars Steinunnar Þóru sagði Logi sérkennilegt að þrátt fyrir þessa stefnu samþykkti VG þjóðaröryggisstefnu reista á aðild að NATO og grunnstefnu bandalagsins sem þýddi væntanlega þátttöku í stríði þegar þannig bæri undir. Hvort Steinunni Þóru þætti ekki skrýtið að vilja treysta á þessa grunnstoð sem einhvers konar neyðarvörn fyrir lítið ríki en telja sig samt þess umkomna að hafna því að önnur lönd nytu þess sama. „Ég spyr hvort þetta geti ekki bara á nokkuð skýrri íslensku flokkast undir hræsni,“ sagði Logi Einarsson í lok máls síns.
Steinunn Þóra svaraði að sér þætti orðalag Loga benda til mjög áþreifanlegrar stefnubreytingar hjá Samfylkingunni gagnvart aðild að NATO. „Við [í VG] erum enn þeirrar skoðunar að við teljum að við eigum að segja okkur úr NATO,“ áréttaði hún. Það þyrfti að breyta „langtímahugsun alþjóðastjórnmálanna“.
Þögnin um utanríkis-, öryggis- og varnarmál í ályktunum landsfundar VG stafar ekki af gleymsku heldur af djúpstæðum vanda flokks sem skortir þrek til að gera upp við úrelta fortíðarstefnu.