16.2.2021 10:13

Löggæsla í breyttu umhverfi

Þjóðfélagið hefur gjörbreyst en við framkvæmd löggæslu situr við það sama. Hvað veldur? Hverra hagsmuna eru þeir að gæta sem mæla gegn umbótum?

Greiningardeild ríkislögreglustjóra tók til starfa 1. janúar 2007, þegar nýskipan lögreglumála kom til sögunnar, það er fækkun lögregluumdæma og sameining þeirra. Fyrsta mat greiningardeildarinnar á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi var lagt fyrir ríkisstjórn 1. júlí 2008.

Hætta á hryðjuverkum hér var metin lítil í byrjun júní 2008. Hins vegar var þunga áherslu á aukin umsvif skipulagðra erlendra glæpahópa á Íslandi. Þá voru íslenskir afbrotamenn ekki taldir síður stórtækir í skipulögðum afbrotum.

Í skýrslunni var tekið fram við skoðun á hættumati vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi bæri að hafa í huga, að lögregla á Íslandi hefði ekki forvirar rannsóknarheimildir innan þess málaflokks og mætti því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila lægi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. Möguleikar lögreglunnar hér til að fyrirbyggja hryðjuverk væru því ekki þeir sömu og annars staðar á Norðurlöndunum. Þessu fylgdi einnig að íslensk lögregla hefði mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga sem kynnu að fremja hryðjuverk.

Fr_20190306_107120_4Í tilefni af birtingu hættumatsins sagði Morgunblaðið í leiðara 4. júlí 2008:

„Af því, sem fram kemur í hættumatinu, má draga þá ályktun að stofnun greiningardeildar ríkislögreglustjóra var nauðsynlegt framfaraspor í löggæzlu á Íslandi. Lögreglan verður að búa yfir ýtarlegri greiningu á því umhverfi, sem hún starfar í, og líklegri þróun þess, m.a. í samhengi við framvinduna á alþjóðlegum vettvangi.

Sömuleiðis er auðvelt að álykta að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um aukinn viðbúnað lögreglunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum, t.d. með eflingu sérsveitar ríkislögreglustjóra, voru réttar.

Og í ljósi lestrarins verða þingmenn, sem lögðust af offorsi gegn þessum umbótum, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi, dálítið hlægilegir. Menn, sem vildu í öðru orðinu berjast með oddi og egg gegn m.a. fíkniefnasölu, vændi og mansali, lögðust í hinu orðinu gegn því að lögreglan fengi þau tæki sem duga til að taka á slíkri starfsemi.

Meðal þeirra, sem höfðu allt á hornum sér yfir stofnun greiningardeildarinnar, voru Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, sem höfðu miklar áhyggjur af „leyniþjónustu“ og „njósnastarfsemi“ á Íslandi. Það er gott að nú geta þeir lesið fyrstu niðurstöður „njósnanna“ í opinberri skýrslu.

Þegar lagt var til að efla sérsveitina, m.a. til að geta brugðizt við vopnuðum glæpahópum og hryðjuverkum, hlupu téður Ögmundur og Ágúst Ólafur, ásamt Helga Hjörvar og Lúðvík Bergvinssyni, upp til handa og fóta. Meðal annars var spurt hvort verið væri að stofna „íslenzkan her“. Bendir eitthvað til þess, nú þegar sérsveitin hefur margoft sannað sig við löggæzlustörf?“

Þetta er rifjað upp hér að gefnu tilefni og vegna þeirra orða sem fallið hafa vegna morðs í Rauðagerði á dögunum sem talið er tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Lögregla hefur ekki fengið neinar meiri rannsóknarheimildir þrátt fyrir gjörbreytt starfsumhverfi hennar. Nú eru 14 ár frá ofangreindum breytingum á starfsskilyrðum hennar. Þjóðfélagið hefur gjörbreyst en við framkvæmd löggæslu situr við það sama. Hvað veldur? Hverra hagsmuna eru þeir að gæta sem mæla gegn umbótum?