Lögfræðingur í stól útvarpsstjóra
Stefán Eiríksson borgarritari er nýr útvarpsstjóri. Í fyrsta sinn í 90 ára sögu ríkisútvarpsins situr lögfræðingur á stóli útvarpsstjóra.
Stefán Eiríksson borgarritari er nýr útvarpsstjóri. Í fyrsta sinn í 90 ára sögu ríkisútvarpsins situr lögfræðingur á stóli útvarpsstjóra. Þar að auki lögfræðingur með langa reynslu af framkvæmd stjórnsýslulaga auk þess að hafa stjórnað lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og reynt á eigin skinni hve viðkvæmt og erfitt ástand skapast innan stjórnsýslunnar vegna óvandaðs fréttaflutnings, til dæmis í ríkisútvarpinu sem hreykir sér af því að njóta mesta trausts íslenskra fjölmiðla.
Eiríkur Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður á ríkisútvarpinu, boðaði á Facebook að til uppreisnar kæmi innan opinbera hlutafélagsins, RÚV ohf., ef sjálfstæðismaður yrði ráðinn útvarpsstjóri. Nú reynir á Eirík og aðra uppreisnarsinna. Til hvaða stjórnmálaflokks telja þeir Stefán?
Til að árétta gildi sýnilegrar löggæslu gekk Stefán Eiríksson að jafnaði til starfa í einkennisbúningi sem lögreglustjóri.
Fyrir liggur að stjórn RÚV ohf. telur sér ekki skylt að fara að lögum um aðskilnað rekstrarþátta innan opinbera hlutafélagsins þrátt fyrir skýra afstöðu ríkisendurskoðunar um skyldu félagsins í því efni. Krefst stjórnin að lögum verði breytt til að tryggja RÚV sérstöðu að þessu leyti. Þetta er í samræmi við rótgróið viðhorf, innan RÚV geti menn umgengist lögin að eigin geðþótta.
RÚV starfar frekar fyrir sjálft sig og starfsmenn sína en þá sem standa undir kostnaði við reksturinn (um 5 milljarða nefskattur og 2 milljarðar auglýsingatekjur). Sjálfhverfara opinbert hlutafélag er vandfundið og er þá mikið sagt.
Magnús Óskarsson lögmaður ræðir lögin sem gilda um RÚV í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag (29. janúar), daginn eftir að lögfræðingur verður útvarpsstjóri. Magnús minnir á að lög- og reglufest er að fréttamenn RÚV „skuli vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð, sannreyna að heimildir séu réttar og stunda vandaða fréttamennsku“. Þá segir hann:
„Fréttastofa Ríkisútvarpsins flytur oft fréttir þar sem upplýst er um það sem fréttamennirnir virðast telja vera lögbrot. Því miður eru of mörg dæmi um það að síðar komi í ljós að slíkur fréttaflutningur reynist hafa verið reistur á veikum grunni. Bent hefur verið á nýleg dæmi um slík fréttamál eins og fréttir um vopnaflug Atlanta til Sádi-Arabíu, mansal á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri, ásakanir Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisbrot Samherja, meint skattalagabrot Bjarna Benediktssonar í svokölluðu Vafningsmáli og meint skattalagabrot Sigmundar Davíðs Guðlaugssonar í svokölluðu Wintrismáli. Það er erfitt að halda því fram að þarna hafi verið sannreynt að heimildir væru réttar, sbr. framangreindar lagareglur eða að fréttamenn hafi fullvissað sig um að upplýsingar þeirra væru réttar eins og þeim ber að gera samkvæmt 6. kafla vinnureglna fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er um leið erfitt að fallast á að þarna hafi verið miðlað vönduðu efni eða að þessi frétta- og fréttaskýringaþjónusta hafi verið vönduð og að Ríkisútvarpið hafi þarna verið til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð eins og talað er um í framangreindum lagareglum. Meðferð þessara fréttamála vekur líka spurningar um hvort almenningur geti treysti því að rétt sé farið með efnisatriði í fréttum Ríkisútvarpsins eins og einnig er mælt fyrir um í 6. kafla vinnureglna fréttastofu Ríkisútvarpsins.“
Um leið og undir þessi orð er tekið er Stefáni Eiríkssyni óskað velfarnaðar í nýju starfi.