15.1.2022 11:31

Lögfræði og pólitík í Danmörku

Það er þannig ekki eitt heldur allt sem veldur uppnámi í dönskum stjórnmálum um þessar mundir þegar lögin og pólitíkin vega salt.

Fréttin um að danski Venstre-þingmaðurinn Claus Hjort Frederiksen, fyrrv. varnarmálaráðherra, sé grunaður um að hafa rofið þagnarskyldu og kunni að eiga yfir höfði sér ákæru kom eins og reiðarslag yfir dönsku þjóðina föstudaginn 14. janúar 2022, sama dag og hún fagnaði að Margrét II. hefði setið 50 ár við völd. Vísað er til 109 gr. í refsilögunum, ákvæði sem snýr að landráðum, brot gegn því getur leitt til allt að 12 ára fangelsis.

Þetta mál er sett í samband við mál gegn Lars Findsen, yfirmanni leyniþjónustu hersins (FE), fyrrverandi yfirmanni leyniþjónustu dönsku lögreglunnar (PET). Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því snemma í desember 2021. Fór varðhaldið leynt þar til fyrir nokkrum dögum.

Efnisatriði kærunnar gegn Hjort Frederiksen og gegn Findsen eru leyndarmál. Getgátur eru um að þau snúist um uppljóstrun þeirra um samstarf Dana og Bandaríkjamanna um leynilegar hleranir á fjarskiptastrengjum á yfirráðasvæði Dana. Þótt þetta sé nefnt er jafnframt tekið fram í fréttum að ef til vill séu mál mannanna óskyld og grunsemdirnar séu um eitthvað allt annað og alvarlegra,

Hjort Frederiksen hefur um árabil verið þungavigtarmaður í Venstre og átt ríkan þátt í að rækta tengsl flokksins við aðra flokka, ekki síst Danska þjóðarflokkinn (DF) þegar hann studdi ríkisstjórn Venstre. Áður en fréttin um kæruna birtist hafði Claus Hjort Frederiksen tilkynnt að hann sæti nú sitt síðasta kjörtímabil. Áður en því lýkur kann hann að verða sviptur þinghelgi til að lögum verði komið yfir hann.

Basset.dr.dkBarbara Bertelsen (t.v.) og Mette Frederiksen.

Í dag (15. janúar) beinist athygli að hlut sósíal-demókratans Mette Frederiksen forsætisráðherra og valdamikils ráðuneytisstjóra hennar, Barböru Bertelsen. Þær stjórna báðar mikilvægum nefndum um öryggi danska ríkisins sem að mati lagaprófessora hljóta að hafa komið að ákvörðunum um kærurnar á hendur ráðherranum fyrrverandi og leyniþjónustustjóranum.

Í þessu máli eins og fleirum sem nú setja mikinn svip á dönsk stjórnmál vega lögfræði og pólitískar ákvarðanir salt.

Mette Frederiksen og Barbara Bertelsen tengjast minkamálinu svonefnda, ákvörðun dönsku stjórnarinnar um að farga öllum minkum í Danmörku vegna COVID-19. Málið er til lögfræðilegrar rannsóknar en er stórpólitískt í eðli sínu.

Landsdómsmálið yfir Inger Støjberg, fyrrverandi útlendingamálaráðherra, hófst í danska þinginu og lauk þar með brottvísun hennar af þingi sem óverðugri eftir að landsdómur dæmdi hana í fangelsi. Yfir málinu svífur að þar hafi pólitíkin ráðið meiru en lögfræðin.

Héraðsdómi gegn DF-þingmanninum Morten Messerschmidt var vísað frá í landsrétti vegna þess að héraðsdómarinn var talinn vanhæfur vegna pólitískrar afstöðu hans sem birtist á Facebook. Málið skapar töluverða spennu innan DF vegna átaka um nýjan formann í flokknum.

Það er þannig ekki eitt heldur allt sem veldur uppnámi í dönskum stjórnmálum um þessar mundir þegar lögin og pólitíkin vega salt.