2.11.2021 10:20

Loftslagsvá án flimtinga

Vísi hann með þessum orðum til greinar minnar skal tekið fram að síst af öllu vakti fyrir mér að hafa málefni Votlendissjóðs í flimtingum.

Einhverjum finnst örugglega að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hafi haft loftslagsvandann í flimtingum þegar hann líkti tímaþrönginni vegna aðgerðaleysis við að dómsdagsklukku mannkyns vantaði aðeins kortér í miðnætti og við gætum ekki treyst á sömu brögð og James Bonds því að hann lifði í kvikmynd en við í ógnvekjandi raunveruleika.

Þetta voru stílbrögð hjá breska forsætisráðherranum sem flugu hratt á öldum ljósvakans og hafa vonandi vakið einhverja til umhugsunar.

Í grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu laugardaginn 30. október um loftslagsvandann í tilefni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem Johnson setti með ofangreindu líkingingarmáli í Glasgow í gær (1. nóv.) ræddi ég meðal annars um Votlendissjóð.

Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir í grein í Morgunblaðinu í dag (2. nóv.): „Það mikla og örlagaríka mál, loftslagsváin, sem Votlendissjóðurinn er stofnaður til að vinna gegn, er alvarlegra en svo að flimtingar og tortryggni í hans garð sé viðeigandi.“ Vísi hann með þessum orðum til greinar minnar skal tekið fram að síst af öllu vakti fyrir mér að hafa málefni Votlendissjóðs í flimtingum.

Mér þótti hins vegar fráleit sú skoðun eins af fulltrúum Íslands í Glasgow, Finns Ricarts, fulltrúa ungra umhverfissinna, að eignarrérttur bænda á jörðum þeirra stæði í vegi fyrir áhuga á samstarfi við Votlendissjóð. Í grein sinni tekur Þröstur af skarið um þetta og segir Votlendissjóð aldrei hafa farið fram á eignaafsal. Eftir fjölda funda með bændum og öðrum sérfróðum mönnum stend ég við þá skoðun mína að tortryggni gæti í garð Votlendissjóðs og ímyndar hans.

Kjarni í málflutningi mínum er að allt sem sé í boði hér í nafni kolefnisbindingar skuli standast alþjóðlegar kröfur og njóta alþjóðlegrar vottunar. Fagna ég því að Þröstur Ólafsson skýrir afstöðu sína og væntanlega stjórnar sjóðsins til þess máls. Hann segir að alþjóðleg vottun með kolefniseiningar úr endurheimtu votlendi sé skammt á veg komin erlendis. Votlendissjóður hafi fengið sérfræðinga til að athuga með hvaða hætti sjóðurinn geti fengið alþjóðlegt vottunargildi á endurheimtar einingar og gert þær gjaldgengar heima sem erlendis. Þetta sé dýrt og þarna gegni Landgræðslan lykilhlutverki. Ætlunin sé að semja við erlenda vottunarstofu um alþjóðlega vottun kolefniseininga.

Af þessu má ráða að stjórn Votlendissjóðs átti sig á þessum vanda. Hér er nú komið til sögunnar fyrirtækið Loftslagsskrá sem auðveldar innlendum og erlendum aðilum að átta sig á kröfum sem gerðar eru til kolefniseininga svo að þær séu gjaldgengar á markaði hvar sem er. Eitt meginviðfangsefni COP26 er að móta alþjóðlegan ramma um slíkt markaðsverð og einfalda viðskiptakerfið.

Skynews-prince-charles-prince-of-wales_5566214Karl Bretaprins á COP26 í Glasgow

Karl Bretaprins sem hefur barist fyrir umhverfisvernd í hálfa öld og stundum verið líkt við sérvitring vegna skoðana sinna á þeim málum nýtur nú meira trausts en margir aðrir áhrifamenn vegna þrautseigju sinnar. Hans helsta baráttumál nú er að virkja stórfyrirtæki og markaðinn til átaka gegn loftslagsbreytingunum. Í Glasgow sagði hann að til að nauðsynlegur árangur næðist yrði að grípa til aðgerða sem líktust því að ráðist yrði í stórtæka hernaðaraðgerð. Þetta á við hér á landi eins og annars staðar og vopnin verða að bíta.