Loft lævi blandið í Evrópu
Loft er lævi blandið í evrópskum öryggismálum um þessar mundir. Óvissan er mikil. Pútin elur á ótta. Vera kann að vopnaglamur hans sé aðeins til heimabrúks,
Eftir tvo fjarfundi Joes Bidens Bandaríkjaforseta og Vladimirs Pútins Rússlandsforseta í desember er áfram fundað í byrjun nýs árs vegna spennunnar sem Pútin skapaði með því að stefna um 100.000 hermönnum að landamærum Úkraínu. Vopnaglamur sitt segir Pútin miða að því að knýja Bandaríkjastjórn og NATO til að stöðva stækkun bandalagsins í austur og til að fjarlægja nútíma vopnakerfi frá rússnesku landamærunum.
Rússneskir hermenn réðust inn í Georgíu í ágúst 2008 og hófu þar með fyrsta stríð 21. aldarinnar í Evrópu.
NATO opnaði dyr sínar fyrir Georgíu og Úkraínu á ríkisoddvitafundi bandalagsins 3. apríl 2008 í Búkarest. Bandaríkjastjórn og NATO hafa stofnað til náins samstarfs við Finna. Þetta eru þrjár þjóðir við vestur landamæri Rússlands. Nú um áramótin sögðu forseti og forsætisráðherra Finnlands afdráttarlaust að Finnar sjálfir mundu ákveða hvort þeir gengju í NATO eða ekki. Rússar sviptu þá ekki þessum sjálfsákvörðunarrétti. Fari Finnar í NATO gera Svíar það einnig. Kúvendingu tveggja norrænna þjóða í öryggismálum má rekja til ofríkisstefnu Pútins.
Fundir í þágu viðræðna:
Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna efna til skyndi fjarfundar um stöðuna í Úkraínu föstudaginn 7. janúar. Joe Biden og Vladimir Pútin ræða saman sunnudaginn 9. janúar. Mánudaginn 10. janúar hittir Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu. Sama mánudag ræða fulltrúar stjórna Bandaríkjanna og Rússlands saman í Genf. Samstarfsráð NATO og Rússa er boðað til fundar í höfuðstöðvum NATO miðvikudaginn 12. janúar.
Í Frakklandi er haldið úti vefsíðunni Desk Russie. Þar birtist nýlega grein eftir Françoise Thom , sagnfræðing og fyrrv. kennara við Sorbonne-háskóla, þar sem vitnað er til nýlegs efnis í rússneskum fjölmiðlum til stuðnings harðlínustefnu Pútins. Hverjum sem les þessa texta verður ljóst að innan Rússlands er nú alið á ógnvænlegu hugarfari sem gerir fundi á borð við þá sem nefndir eru hér að ofan næsta marklitla enda segir Thom:
„Mjög oft er besta ráðið í samskiptum við Rússa að þegja og halda sig í fjarlægð: gera ekkert, segja ekkert og standa vörð um sitt. Að leggja allt undir vegna viðræðna einkum þegar Moskvumenn beina að okkur byssu eins og sturlaður maður með gísl, sýnir aðeins veiklyndi okkar og hvetur Kremlverja til enn meiri hvatvísi.“
Loft er lævi blandið í evrópskum öryggismálum um þessar mundir. Óvissan er mikil. Pútin elur á ótta. Vera kann að vopnaglamur hans sé aðeins til heimabrúks, Pútin feti í fótspor harðstjórans í Norður-Kóreu sem átti sér þann draum heitastan að setjast andspænis Donald Trump sem jafningi. Viðræðurnar við Trump skiluðu engu öðru en gloríu í kringum harðstjórann á heimavelli.
Pútin harmar hrun Sovétríkjanna fyrir 30 árum og vill sýna Rússum eftir niðurlæginguna að hann geti kallað Joe Biden til fundar við sig þegar honum hentar og sett Bandaríkjastjórn og NATO afarkosti. Við skulum semja um það sem ykkur við kemur en við höldum sjálfir okkar, sögðu Sovétmenn. Tími slíkra viðræðna er runninn upp að nýju.