14.11.2019 13:32

Lofsamleg umsögn um Stílæfingarnar

Einar Falur Ingólfsson skrifar um Stílæfingarnar eftir Raymond Queneau

Hér birti ég umsögn í Morgunblaðinu 13. nóvember 2019 eftir Einar Fal Ingólfsson um bók sem Rut þýddi:

Nær endalausir möguleikar

Stílæfingar ****½

Miðvikudagur, 13. nóvember 2019

Eftir Raymond Queneau. Rut Ingólfsdóttir íslenskaði og ritaði eftirmála. Ugla, 2019. Kilja, 176 bls.

Stílæfingar franska höfundarins Raymonds Queneaus (1903-1976) er býsna óvenjulegt en jafnframt áhugavert og skemmtilegt bókmenntaverk. Þetta eru 99 tilbrigði við litla og einfalda sögu. Sagt er frá ungum manni sem er í strætisvagni og fer þar að rífast við annan farþega. Síðar sama dag sést til unga mannsins við brautarstöð í París, þar sem hann ræðir við vin sinn. Queneau segir þessa stuttu sögu á furðulega fjölbreytilega vegu; í ólíkum tíðum, frá ýmsum sjónarhornum og með ótal stílbrigðum, í leikritsformi og bundnum sem óbundnum ljóðum, í ýmiskonar orða- og stafaleikjum og á mállýskum. Það er með hreinum ólíkindum hvað hægt er að segja söguna stuttu á fjölbreytilegan hátt; frá fullkomlega raunsæislegum frásagnarhætti í nútíð eða þátíð yfir í „Upphrópanir“, með „Hliðrun“, „Ítölskuskotið“, „Kæruleysislega“, „Út frá snertingu“, með „Stagli“ eða í „Yfirheyrslu“ – en kaflaheitin greina frá aðferðinni sem höfundur beitir í hvert sinn.

Stilaefingar-2.width-1220

Queneau var þekktur og virtur rithöfundur og bókmenntaritstjóri í Frakklandi og var í Oulipo-bókmenntahópnum, en meðlimir hans vildu „nútímavæða og auka fjölbreytni tungumála sinna“, samkvæmt eftirmála þýðanda. Meðal meðlima voru höfundarnir kunnu Georges Perec og Italo Calvino. Queneau skrifaði fyrstu stílæfingarnar á tímum heimsstyrjaldarinar síðari og komu um fimmtíu þeirra þá út í tímaritum. Verkið kom síðan út á bók árið 1947 en Queneau endurskoðaði það nokkrum sinnum, þar til það kom á prent í endanlegri útgáfu 1973.

Í Stílæfingum reynir Queneau með afar frumlegum hætti á þanþol og möguleika frönsku tungunnar. Það getur ekki verið hlaupið að því að þýða slíkt verk á annað tungumál en óhætt er að segja að Rut Ingólfsdóttir hafi leyst verkið listavel, og reynt um leið með vel lukkuðum hætti og frumlega á möguleika íslenskunnar. Það er mikill leikur í þessum texta og í frumútgáfunni til að mynda vísað í ýmsar áttir. Rut gerir vel að halda ákveðnum texta- og söguvísunum inni en í öðrum tilvikum vísar hún á skemmtilegan hátt í íslenskan veruleika, eins og til Ólafs Ketilssonar rútubílstjóra á Laugarvatni á einum stað eða í „hjöll“, langar ræður Hjörleifs Guttormssonar á Alþingi. Einn kaflinn á að gerast árið 1783 og leitaði Rut þar í smiðju Jóns eldklerks Steingrímssonar að hugmyndum um málfar hans og stafsetningu.

Rut skrifar þarfan og upplýsandi eftirmála þar sem segir af höfundinum, verkum hans en þó einkum Stílæfingunum og hinum ýmsu aðferðum sem beitt er í þeim og er til að mynda forvitnilegt að fá skýringar á þeim köflum þar sem beitt er alls kyns orða- og stafarugli, orðaleikjum og dulmáli. Þá skýrir hún jafnframt hvaða leiðir hún hafi farið í þýðingarvinnunni. Er það góð og upplýsandi viðbót eftir að hafa skemmt sér konunglega við lesturinn og dáðst að uppfinningaseminni og öllum möguleikunum við að segja þessa litlu og í raun nauðaómerkilegu sögu. En svona getur galdur bókmenntanna verið.

Einar Falur Ingólfsson