4.10.2021 9:51

Ljósmyndir, málverk og kvikmynd

Er ævintýri líkast að sjá hve vel hefur tekist til við tæknilega endurvinnslu Sögu Borgarættarinnar og tónlist Þórðar Magnússonar gefur henni nýja og djúpa vídd.

Menningarlífið færist smátt og smátt í sitt fyrra horf eftir heimsfaraldurinn. Nauðsynlegt er að taka af skarið og afnema grímuskyldu, sé hún á annað borð í gildi, fyrir þá sem sækja menningarviðburði. Sé skyldan í gildi er henni fylgt fram á þann hátt að hún er í raun marklaus. Þá er fólk tekið til við að heilsast með handabandi að nýju þótt minna sé um það en fyrir faraldur.

Í anddyri einnar menningarstofnunar þurftu menn að skrá nafn, kennitölu og símanúmer á blað fengju þeir sér veitingar sem í boði voru. Við inngang í aðra stofnun voru grímur og fólk hvatt til þess að setja þær á sig. Í þeirri þriðju var konfekt í skálum og gat hver sem er fengið sé mola án þess að setja á sig plasthanska eða nota töng.

Á öllum þremur stöðunum mátti víða sjá handsprittbrúsa. Að þessu sögðu skulu menningarviðburðirnir nefndir. Um alla gildir að verðugt er að gefa sér tíma til að kynna sér þá.

Í myndasal Þjóðminjasafns Íslands er sýning sem heitir Mannamyndasafnið sem er safnheild innan Ljósmyndasafns Íslands þar sem finna má ólíkar gerðir mynda, þar á meðal málverk, ljósmyndir, útsaumsverk og höggmyndir. Á sýningunni sem opnuð var á laugardaginn eru 34 þemu sem gera þessum safnkosti skil á eftirminnilegan og skemmtilegan hátt.

Í Listasafni Íslands er nú yfirlitssýningin MUGGUR á verkum Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) f.1891-d.1924. Í kynningu á sýningunni segir:

„Hann fann hugmyndum sínum farveg með ólíkum miðlum og aðferðum; teiknaði með blýanti, krít og penna, vatnslitaði, málaði með olíulitum, gerði klippimyndir úr pappír, bróderaði, saumaði og skar út í tré.“

Hin-ungu-listasystkin-1-copyKynningarspjald Listasafns Íslands á sýningunni Muggur.

Öllu þessu má kynnast á þessari fjölbreyttu sýningu. Muggur var einnig leikari eins og okkur bauðst að sjá í Bíó Paradís klukkan 15.00 sunnudaginn 3. október í kvikmyndinni Sögu Borgarættarinnar sem gerð er eftir samnefndu ritverki Gunnars Gunnarssonar skálds. Í kynningu segir að myndin marki upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Hún var tekin upp haustið 1919 með dönskum og íslenskum leikurum, að mestu í Reykholti í Borgarfirði, á Keldum á Rangárvöllum og í leikmynd sem var reist á Amtmannstúni í Reykajvík. Myndin var frumsýnd í Kaupmannahöfn í ágúst 1920 og hér á landi í janúar. 1921. Víða um lönd var efnt til sýninga á myndinni og tapaði Nordisk Film ekki á gerð hennar. Aðstandendum sýningarinnar nú er óskað til hamingju með það metnaðarfulla framtak.

Muggur leikur burðarhlutverk í kvikmyndinni sem nú hefur verið endurgerð í háskerpu og með nýrri frumsaminni tónlist Þórðar Magnússonar í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Myndin skiptist í tvo hluta og tekur sýning hennar 3,5 klst. með hléi.

Er ævintýri líkast að sjá hve vel hefur tekist til við tæknilega endurvinnslu myndarinnar og tónlist Þórðar Magnússonar gefur henni nýja og djúpa vídd: Til verður sannfærandi heildstætt listaverk með tilfinningu í krafti tónlistarinnar.

Fyrir utan allt annað sem kvikmyndin sýnir má staldra við lágvaxna hestana miðað kynbætur undanfarin 100 ár og skóglaust víðerni landsins.