Ljósmæðradeila leyst - útúrsnúningar vegna Piu
Vegna kjaradeilu ljósmæðra hefur reynt á innviði ríkisstjórnarinnar, ekki síst vegna þrýstings innan raða VG, þar er þanþolið vegna átaka af þessu tagi takmarkað.
Kjaradeila ljósmæðra er leyst. Undir lok maí sömdu ljósmæður en felldu þann samning í atkvæðagreiðslu í byrjun júní. Að kvöldi laugardags 21. júlí var yfirvinnubanni ljósmæðra aflýst vegna miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram fimmtudaginn 19. júlí og ljósmæður höfnuðu þá og sögðu hann reistan á samningnum sem felldur var í júní.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði við mbl.is að kvöldi laugardags 21. júlí að við miðlunartillöguna hefði bæst yfirlýsing frá Landspítalanum um „að endurskoða og endurmeta starfslýsingar og ábyrgð ljósmæðra og taka inn í það jafnlaunavottunina sem átti eftir að meta til tekna, og endurskoða þar með laun á stofnuninni“. Þá verður úttekt á störfum ljósmæðra samanborið við aðrar stéttir vísað í gerðardóm.
Þetta verður borið undir ljómæður og á niðurstaða í atkvæðagreiðslu þeirra að liggja fyrir á miðvikudag.
Samþykki ljósmæður miðlunartillöguna hafa samningar náðst við öll félög innan BHM í þessari kjaralotu. Af hálfu ríkisstjórnarinnar og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra var dregið rautt strik vegna þessara samninga af hálfu ríkisins og við það sat.
*
Vegna kjaradeilu ljósmæðra hefur reynt á innviði ríkisstjórnarinnar, ekki síst vegna þrýstings innan raða VG, þar er þanþolið vegna átaka af þessu tagi takmarkað. Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra létu þó ekki beygja sig.
Til marks um þennan þrýsting má nefna að í sama mund og ljósmæðradeilan leystist tilkynnti Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi varaþingkona VG, á Facebook að hún væri hætt í flokknum.
„Ég get ekki verið í flokki sem situr í ríkisstjórn sem semur ekki við ljósmæður og býður alræmdum rasista á hátíðlegustu athafnirnar. Það er fullt af frábæru fólki í VG með hjartað á réttum stað, en ég vil ekki vera þar lengur.“
Það er rangt hjá Hildi að ekki hafi verið samið við ljósmæður. Það var gert í maí en þær felldu samninginn. Nú hefur málum verið bjargað í horn eins og að ofan er lýst.
Hætti Hildur ekki við að hætta ræður Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, hvar hún skipar sér í flokk.
Flokkur Kjærsgaard, Danski þjóðarflokkurinn, nýtur vinsælda meðal kjósenda. Enginn dregur lýðræðislega stjórnarhætti Dana í efa. Að segja sig úr stjórnmálaflokki á Íslandi með opinberri yfirlýsingu vegna þess að Kjærsgaard komi sem þingforseti hingað til lands og tali á hátíðarfundi alþingis sýnir fyrst og síðast ístöðuleysi.
Þeir sem ríghalda í þá skoðun að réttmætt sé að mótmæla Kjærsgaard reyna að fóta sig á ýmsu málstað sínum til stuðnings. Nýjasta útspilið er að gera þessi orð danska þingforsetans tortryggileg:
„Er ríkjasamband okkar var við lýði þótti Dönum Ísland vera það land þar sem hin upphaflega sjálfsmynd norrænna manna var varðveitt. Á 19. öld átti Ísland þátt í að kynda undir danskri þjóðerniskennd sem vöggu norrænnar menningar.“
Það er ekki annað en ómerkilegur útúrsnúningur að láta eins og með þessum orðum sé Pia Kjærsgaard að lýsa einhverju í samtímanum eða eigin stefnu. Þeir sem þurfa að grípa til slíks útúrsnúnings til að rökstyðja afstöðu sína hafa veikan málstað.