18.9.2019 12:11

Lituð ljósvakamennska

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins sitja í öllum álitsgjafasætum og velja aðeins til samtals skoðanabræður eða uppnámsmenn innan Sjálfstæðisflokksins.

Í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála var birt yfirlit um það hvernig 142 viðmælendur í rúv-þættinum Silfrinu veturinn 2018/2019 skiptust á milli skoðanahópa. Af gestunum voru 73 (51%) til vinstri, 28 (20%) í miðju, 27 (19%) til hægri og 14 (10%) eru „óflokkaðir“.

Í kynningu á frétta- og umræðuþáttarins 21 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 17. september segir að þar setjist á rökstóla ritstjórarnir Björgvin G. Sigurðsson og Valur Grettisson. Björgvin G. sat á þingi og í ríkisstjórn fyrir Samfylkinguna og Valur Grettisson var á sínum tíma kosningastjóri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Umræðum þessara tveggja pólitísku samherja stjórnar þriðji skoðanabróðirinn, Sigmundur Ernir, sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna. Á vefsíðunni hringbraut.is segir þriðjudaginn 17. september að þeir félagar muni „ræða hispurslaust um ríkislögreglustjóramálið, uppnámið í þingnefndum og líðan stjórnmálaflokkanna.“ Um efnistökin varðandi líðan stjórnmálaflokkanna segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn sé að kremjast á milli Viðreisnar og Miðflokks, verði að ákveða í hvorn fótinn hann ætli að stíga, þann frjálslynda eða íhaldssama, Viðreisn haldi Samfylkingu niðri, VG haldi siglingu – muni ekki slíta samstarfi við íhaldið fyrir kjörtímabilslok – og Framsókn verði að fara að tjá sig, hafi bara lokað sínum pólitíska gúla [svo!] af ótta við að tala af sér á síðustu mánuðum eða svo“.

Hér skal ekki dregið í efa að samtal samfylkingarmannanna þriggja hafi verið fróðlegt og þeir hafi gefið Sjálfstæðisflokknum góð ráð um hvernig hann skuli komast hjá því að „kremjast milli Viðreisnar og Miðflokks“. Skal ekki heldur dregið í efa að þessi órökstudda fullyrðing hafi verið rækilega rökstudd í samtalinu.

IMG_9598Myndin er úr Þjóðmálum og sýnir skiptingu viðmælenda í Silfrinu veturinn 2018/19

Þarna er ekki einu orði vikið að því að Sjálfstæðisflokkurinn sendi frá sér gagnmerka stjórnmálaályktun að loknum formanna- og flokksráðsfundi sínum laugardaginn 14. september. Ekki er minnst á hana einu orði í kynningu á samfylkingarsamtalinu. Það er samræmi við þá nútímastarfshætti á ljósvakanum að menn gefi sér forsendur án þess að hafa fyrir að kynna sér réttmæti þeirra, sbr. það sem sagt var hér á dögunum um getgátur fréttamanna ríkisútvarpsins í morgunþætti um skýrslu um EES-samstarfið.

Ný stjórnmálaályktun sjálfstæðismanna ber þess engin merki að flokkurinn kremjist á milli smáflokkanna sem nefndir eru til sögunnar hér að ofan. Þeir engjast hins vegar sundur og saman í samstarfi stjórnarandstöðunnar við kjör á formönnum nefnda á alþingi. Miðflokkurinn býr til dæmis við það að píratar ráðskast með hver verður nefndarformaður fyrir flokkinn. Viðreisnarmaður gerir tillögu um að pírati sem situr uppi með aðfinnslu siðanefndar sé formaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Samfylkingin koðnar niður og hefur engan styrk sem stjórnarandstöðuflokkur á þingi og forystuflokkur meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Þegar andstæðingar Sjálfstæðisflokksins sitja í öllum álitsgjafasætum og velja aðeins til samtals skoðanabræður eða uppnámsmenn innan Sjálfstæðisflokksins er auðvelt að draga upp bjagaða mynd af flokknum, störfum hans og stefnu.