Lítilsvirðing formanns borgarráðs
Hvernig færi á því að formaður borgarráðs sýndi gott fordæmi og stæði þétt að bakið þessu fólki en sýndi því ekki lítilsvirðingu?
Stríð borgaryfirvalda undir forystu Dags B. Eggertssonar við þá sem stunda atvinnurekstur við Laugaveginn er sérstakt rannsóknarefni. Vikið er að þessum harkalegu átökum í tveimur greinum í Morgunblaðinu í dag (30. apríl).
Matthildur Skúladóttir, sem stundaði rekstur verslunar og gistiheimilis við Skólavörðustíg segir:
„Samtal borgaryfirvalda við kaupmenn og húseigendur á Laugavegi og Skólavörðustíg er nánast ekkert. Hroki borgaryfirvalda í þeirra garð er hreint út sagt ótrúlegur. [...]
Því miður eru engin teikn á lofti um að borgaryfirvöld sjái að sér og munu þess í stað halda sínu striki í því að hafna öllu samráði við rekstraraðila með þeim afleiðingum að þeir síðustu sem þar standa enn vaktina munu verða nauðbeygðir til að skella í lás og loka. Hroki og yfirgangur borgaryfirvalda í garð kaupmanna við Laugaveg og hluta Skólavörðustígs er ekkert annað en hreint og klárt ofbeldi.“
Þessi mynd Kristins Magnússonar af mannauðum Laugaveginum birtist á mbl.is,
Lárus Guðmundsson segist hafa rekið veitingastaðinn Rossopomodoro á Laugavegi 40 í 14 ár og „alltaf borgað mína skatta og skyldur skilvíslega og stöðugildi eru að jafnaði tólf til fimmtán.“
Lárus segir:
„Hinir háu herrar í ráðhúsinu hafa þó kosið að skella skollaeyrum við tilmælum okkar. Ekkert samráð er við okkur haft og okkur ítrekað sýnd lítilsvirðing af þeirra hálfu. Við höfum mátt þola hroka og yfirgang.“
Til að bæta ástandið við Laugavegunn eru tillögur Lárusar þessar:
- „Afnema allar götulokanir á Laugavegi, Skólavörðustíg og Bankastræti.
- Snúa aftur við akstursstefnunni á Laugavegi milli Klapparstígs og Frakkastígs.
- Bjóða frítt í bílastæðahúsin í nágrenninu fyrstu þrjár klukkustundirnar.
- Hætta að innheimta bílastæðagjöld og taka upp framrúðuskífur þess í stað þannig að frítt verði að leggja, til dæmis frá 90 mínútum og upp í 180 mínútur eftir fjarlægð frá Laugavegi.
- Borgin taki strax upp samráð við Miðbæjarfélagið í Reykjavík enda eru þar innandyra flest elstu og þekktustu fyrirtækin á svæðinu sem gera það spennandi og eftirsóknarvert að koma í bæinn.
Nú er ögurstund fram undan fyrir marga rekstraraðila og bregðast þarf strax við ef ekki á illa að fara. Meira en nóg er komið af götulokunum og öðrum höftum á aðgengi í bæinn!“
Eitt er að kjörnir fulltrúar fari sínu fram í krafti þess umboðs sem þeir telja sig hafa frá kjósendum annað að þeir sýni þeim sem starfa undir ákvörðunum þeirra og reglum þá fyrirlitningu sem lýst er af Matthildi og Lárusi hér að ofan.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn og formaður borgarráðs, skrifaði grein um kröfur á hendur ríkisstjórninni í Morgunblaðið mánudaginn 27. apríl, hófst hún á þessum orðum: „Þegar á móti blæs er horft til hins opinbera til að standa þétt við bakið á fólkinu í landinu.“
Þetta hafa atvinnurekendur í miðborg Reykjavíkur gert en mæta ekki öðru en hroka og yfirgangi í Ráðhúsinu. Hvernig færi á því að formaður borgarráðs sýndi gott fordæmi og stæði þétt að bakið þessu fólki en sýndi því ekki lítilsvirðingu?