Lítill lesskilningur er haft
Frumkrafan til skólanna hlýtur að vera að þeir tryggi nemendum grunnhæfni þannig að þeir geti nýtt sér hana að eigin vild.
PISA-könnunin er framkvæmd þriðja hvert ár á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), að þessu sinni í 79 löndum. Markmið hennar er að kanna stöðu 15 ára nemenda í þremur greinum: lestri, stærðfræði og náttúrufræði.
Niðurstöður fyrstu könnunarinnar hér á landi voru birtar 4. desember 2001 þegar ég var menntamálaráðherra. Þá tóku nemendur 32 landa þátt í könnuninni. Allir íslenskir nemendur í 10. bekk árið 2000 tóku þátt í rannsókninni og sýndi niðurstaðan að árangur Íslendinga í lestri var marktækt ofan við meðaltal nemenda í OECD löndunum. Hið sama gilti um árangur í stærðfræði, en í náttúrufræði var ekki marktækur munur á árangri íslenskra nemenda og meðaltali nemenda allra þátttökulandanna. Lítill sem enginn munur var á árangri íslenskra nemenda eftir skólum og rannsóknin benti til þess að hér væri lökustu nemendunum vel sinnt í samanburði við það sem gerðist annars staðar.
Þessar skýringamyndir vegna PISA birtust í Morgunblaðinu 4. desember,
Niðurstöður nýjustu PISA-könnunarinnar voru að þessu sinni birtar þriðjudaginn 3. desember. Hér tóku 15 ára nemendur þetta próf vorið 2018. Niðurstöðunar sýna að hér standa stúlkur standa framar drengjum í öllum PISA-námsgreinunum þremur. Ísland hefur þar nokkra sérstöðu þegar kemur að stærðfræði, en stúlkur stóðu sig marktækt betur en strákar hér á landi, ólíkt flestum öðrum ríkjum OECD. Ísland er neðst Norðurlandaríkjanna í öllum þremur greinunum þremur sem prófað var úr.
Nemendum sem ná ekki grunnhæfni í lesskilningi hefur fjölgað marktækt síðan í PISA 2015 og eru nú 26% af heildarfjölda nemenda. Hlutfall drengja í þessum hópi er nú 34%, þriðji hver 15 ára strákur á Íslandi býr ekki yfir þeirri grunnhæfni sem OECD telur nauðsynlega til þess að þeir geti lesið sér til gagns og fróðleiks og tekið fullan þátt í samfélaginu.
Þetta eru alvarleg tíðindi ekki síst fyrir þá einstaklinga sem eiga hlut að máli og njóta sín því ekki sem skyldi í samfélaginu. Menntun er tæki sem aldrei verið tekið frá þeim sem hefur tileinkað sér hana. Frumkrafan til skólanna hlýtur að vera að þeir tryggi nemendum grunnhæfni þannig að þeir geti nýtt sér hana að eigin vild. Sá sem ekki getur lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla kemur þaðan í hafti.
Áður var gjarnan brugðist við lélegum árangri í PISA-könnuninni með því að vísa til fjárskorts. Davíð Þorláksson, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, segir réttilega í Fréttablaðinu í dag (4. desember):
„Á sama tíma [og þessi PISA-niðurstaða birtist] erum við að verja hærra hlutfalli þjóðarframleiðslu til grunnskóla en nokkurt annað OECD-ríki. Það hljóta allir að vera sammála um að þetta er óásættanlegt og við þurfum að skoða tafarlaust hvað við getum gert til að bæta þetta.“
Í Le Figaro er í dag lýst sérstökum áhyggjum vegna lesskilnings franskra grunnskólanema sem standa sig þó mun betur en íslensku nemendurnir. Blaðið leggur þá spurningu fyrir lesendur sína hvort þeir vilji að í frönskum skólum verði farin sama leið og Bretar fóru, að hafa eina lestrarstund að eigin vali hvern dag í skólunum. Með þeirri aðferð jókst lesskilningur nemenda í breskum skólum.
Í leiðara Le Figaro segir: „Frakkar „sjöunda mesta veldi í heimi“ náðu varla meðallagssætinu nr. 22 í lestri og skipuðu sér á miðjuna í stærðfræði og náttúruvísindum.“
Við skipum okkur í 33. sæti í lestri en erum á sama róli og Frakkar í stærðfræði. Hér duga engin vettlingatök og ekki heldur varðandi stöðu drengja í skólum. Vandi þeirra hefur legið fyrir í að minnsta kosti 20 ár.