Listviðburður frá Litháen
Tónleikarnir eru eftirminnilegir ekki síst vegna einlægni söngkonunnar sem flutti verkin beint frá hjartanu af ómældu öryggi.
Gintė Damušis, sendiherra Litháens á Íslandi, búsett í Kaupmannahöfn, bauð til tónleika í Hallgrímskirkju að kvöldi mánudags 11. febrúar undir heitinu „Takk, Ísland “. Með tónleikunum minntist sendiherrann 101 árs sjálfstæðis og viðurkenningu Íslendinga á endurreistu sjálfstæði landsins árið 1991.
Tónleikarnir voru opnir öllum og stóðu í tæpa klukkustund. Tvær tónlistarkonur frá Eistlandi, söngkonan Jurga (Šeduikytė) og organleikarinn Diana Encienė fluttu tónlistina. Söng Jurga verk eftir sjálfa sig, Vivaldi, Händel, Bach og Mozart við undirleik Encienė sem auk þess lék tvö orgelverk.
Jurga frá Litháen í Hallgríkskirkju.
Jurga (38 ára) er þjóðfræg í Litháen og hefur gefið út diska með eigin verkum sem hafa selst í tugum þúsunda eintaka. Hún hóf feril sinn í rokk-hljómsveit en hefur árum saman komið fram ein.
Tónleikarnir eru eftirminnilegir ekki síst vegna einlægni söngkonunnar sem flutti verkin beint frá hjartanu af ómældu öryggi og án þess að slá um sig á nokkurn hátt. Túlkun hennar var mjög persónuleg. Þar sem sameinaðist reynsla hennar úr pop-heiminum og hátíðlegur flutningur í kirkju. Hér má sjá upptöku frá tónleikunum.
Það var vel til fundið hjá sendiherra Litháens að efna til þessa listræna viðburðar í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju til að styrkja tengsl Litháa og Íslendinga.
Stjórnmálalega viðburði í tengslum við endurreist sjálfstæði Litháens ber hærra en þau menningarlegu og listrænu tengsl sem skutu strax rótum á milli þjóðanna á árinu 1991. Má þar nefna að Selma Guðmundsdóttir píanóleikari fór til Litháens strax í febrúar á sjálfstæðisárinu 1991 og lék í fimm borgum. Í september sama ár fór Reykjavíkurkvartettinn (Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari, Zbigniew Dubik fiðluleikari, Guðmundur Kristmundsson lágfiðluleikari og Inga Rós Ingólfsdóttir sellóleikari) þangað.
Tónleikar kvartettsins voru hluti alþjóðlegrar tónlistarhátíðar og var honum boðið að koma fram á upphafstónleikum hennar í Vilníus 14. september 1991. Með því vildu forráðamenn hátíðarinnar sýna Íslendingum þakklætisvott vegna stuðnings í sjálfstæðisbaráttunni.
Reykjavíkurkvartettinn hélt að auk tónleika í þremur öðrum borgum í Litháen.