5.10.2020 10:41

Listrænn stjórnarskrárgjörningur

Tillögur stjórnlagaráðs lifa nú sem listrænn gjörningur. Stjórnarskrármálið sjálft tekur aðra stefnu.

Laugardaginn 3. október mátti lesa í Morgunblaðinu frásögn af því að „myndlistartvíeykið“ Libia Castro & Ólafur Ólafsson legðu lokahönd á gjörninginn Í leit að töfrum á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík þar sem kallað væri eftir samþykkt tillagnanna að nýrri stjórnarskrá.

GetFile.php_1601894424706Myndin af Libiu og Ólafi birtist í Morgunblaðinu 3. október.

Ólafur og Libia gerðu stjórnarskrá Íslands í fyrsta sinn að efnivið í listaverk, það er árið 2008. Nú telja þau að þjóðin hafi „kosið með nýrri stjórnarskrá og nú sé hnykkt á þeirri kröfu“.

Ólafur segist nálgast málið úr norðri sem Íslendingur en Libia úr suðri sem Spánverji. Libia telur nýja stjórnarskrá hafa verið samþykkta hér í þjóðaratkvæðagreiðslu og segir:

„En síðustu átta ár hefur þessi nýja stjórnarskrá verið hjúpuð þögn en það er aðferð sem við Spánverjar þekkjum vel frá fjögurra áratuga einræðistíma þar sem lýðræðið var þaggað niður og hæðst að því.“

Þetta er ótrúleg lýsing á því sem hér hefur gerst í stjórnarskrármálum frá 2012. Að líkja umræðum um stjórnarskrármálið við stjórnarhætti á Spáni á tíma einræðis þar er langt úr fyrir allt sem skynsamlegt er.

Nokkur álitamál varðandi stjórnarskrá voru borin undir kjósendur í október 2012. Málsmeðferðin á alþingi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna leiddi einmitt til þess að þingmenn áttuðu sig á að ekki væri unnt að halda áfram á þeirri braut. Þegar málið kom til 2. umræðu í mars 2013 ákvað meirihlutinn einfaldlega að fara aðra leið.

Listræni gjörningurinn á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík fór fram við Alþingishúsið og Stjórnarráðshúsið í blíðskaparveðri laugardaginn 3. október með þátttöku hóps fólks.

Eftir gjörninginn urðu miklar umræður á Facebook um að ríkisútvarpið hefði ekki gert honum skil. Sýndist sitt hverjum. Eitt var að fáir fréttamenn væru á vakt hjá ríkinu um helgar. Til skýringar birti Þorgrímur Gestsson meðal annars þetta:

„Ég held að þetta sé sitt lítið af hverju, m.a. undirmönnun um helgar, sem fjármálaráðuneytið ætlar að tryggja að verði viðvarandi vandi, og sinnuleysi, áhugaleysi. Fyrir jólin 2008 hringdi ég nokkrum sinnum af Austurvelli inn á Fréttastofu en enginn kom fyrr en ég gat vitnað í fréttir BBC um að nokkur þúsund manns væru á mótmælafundi á Austurvelli. Þá kviknaði áhuginn og einhver var sendur til að athuga málið!“

Þarna birtist ekki síður merkilegt viðhorf en til stjórnarskrárinnar í spænskum samanburði. Þegar Þorgrímur talar um „fjármálaráðuneytið“ vísar hann væntanlega til þess að nefskatturinn sem greiddur er til að standa undir rekstri rúv sé ekki nógu hár. Stofnunin hefur sjö til átta milljarða til ráðstöfunar. Að ekki skuli forgangsraðað á fréttastofunni í þágu þessa gjörnings hefur ekkert með fjármálaráðuneytið að gera – alls ekkert. Þá segir Þorgrímur þá frétt að unnt sé að fjarstýra fréttastofunni úr hópi mótmælenda á Austurvelli. Það tókst einnig vegna stjórnarskrár-gjörningsins. Frétt um hann birtist á ruv.is sunnudaginn 4. október.

Tillögur stjórnlagaráðs lifa nú sem listrænn gjörningur. Stjórnarskrármálið sjálft tekur aðra stefnu.