19.11.2022 11:57

Listin og excel-skjalið

Vissulega eru dæmi um að einstaklingum með sérstaka náðargáfu hafi tekist að „leika á“ fjármálamarkaði með aðferðum sem mætti kalla vísindi.

Ríkisendurskoðun gefur til kynna að með opinberri ráðstöfun hefði mátt fá hærra verð fyrir 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022.

Sé innan íslenska stjórnkerfisins fyrir hendi þekking á því hvernig kaupendur á fjármálamarkaði hagi sér vegna ákvarðana stjórnvalda til dæmis þegar hlutabréf í bönkum eða öðrum félögum eru sett á markað er um einstaka forvitringa að ræða.

Heimsfrægur fjármála-, eigna- og framkvæmdamaður, Elon Musk, er í sviðsljósinu eftir að hann keypti Twitter fyrir 44 milljarða dollara. Hann rak þúsundir starfsmanna, afnam ritstjórnarreglur og bauð í raun öllum byrginn. Fyrirtækið er nú sagt riða til falls og kraftaverk þurfi til að bjarga því.

Margir líta að vísu á Musk sem kraftaverkamann og vissulega kann honum enn að takast að bjarga því sem bjargað verður af fyrirtækinu. Fjárfestar, starfsmenn og viðskiptavinnir forða sér þó í stórum hópum frá fallinu.

_127400779_muskgettyElon Musk

Nýlega hljóp Liz Truss, forsætisráðherra Breta, á sig og baðst lausnar eftir 45 daga í embætti. Hún sigraði leiðtogakjör í Íhaldsflokknum, rauk til sem forsætisráðherra að boða skattalækkunarstefnu en fjármálamarkaðarnir sögðu stopp. Eftirmaður og flokksbróðir Tuss, Rishi Sunak, sneri við blaðinu og nú er spurning hvað hann lifir lengi af skattahækkunarstefnuna sem boðuð var í breska þinginu í vikunni.

Ekkert sambærilegt gerðist hér þegar íslenska ríkið seldi ofanefndan hlut sinn í Íslandsbanka. Fleiri vildu kaupa en fengu. Ríkisendurskoðun finnur þó að því að kynna hefði mátt söluna betur og meira gagnsæi hefði mátt vera um ýmsa hluti.

Þá telur ríkisendurskoðun að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir bankann en svo virðist sem „huglægu mati“ hafi verið beitt við val á hvaða tilboðum skyldi tekið. Salan hafi hins vegar verið ríkinu „almennt hagfelld“. Ríkisendurskoðun segir þó ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið ríkissjóði eins hagkvæm og mögulegt var. Við gerð skýrslu hennar hafi ítrekað komið fram af hálfu bankasýslunnar og fjármálaráðgjafa hennar að úrvinnsla söluferlisins væri „frekar í ætt við list en vísindi“.

Vissulega eru dæmi um að einstaklingum með sérstaka náðargáfu hafi tekist að „leika á“ fjármálamarkaði með aðferðum sem mætti kalla vísindi. Hitt er þó ráðandi og gerir markaðina að öflugu tæki í opnum, frjálsum hagkerfum að þar ráðast straumar frekar af skapandi krafti fjárfesta sem mætti kalla list.

Að þessu leyti minna umræðurnar sem staðið hafa á alþingi alla þessa viku á deilur fyrri ára þegar stjórnlyndir ráðamenn vildu ákveða hvað væri list og töldu að allt sem listamenn gerðu ætti að vera í samræmi við formúlur sem þeir settu, annars fengi listamaðurinn ekki opinberan stuðning.

Lesendur eru hvattir til að skoða ummæli þingmanna Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar þessum augum, greina stjórnlyndið og velta fyrir sér hvort þeir vilji búa við reglurnar og hömlurnar sem þingmennirnir boða. Óþarft er að gera annað en fylgjast með því hvernig fréttamenn ríkisútvarpsins, hliðverðir stjórnlyndisins utan þings, halda á málum til að greina ólíka straumana. Þar ræður ekki síst varðstaðan um eigin vinnustað, að ríkið hætti ekki að láta milljarðana renna til hans úr vösum skattgreiðenda.