Listaverkaslaufun í Leiden háskóla
Deilur í Leiden háskóla í Hollandi um málverk sem hangið hefur í stjórnarherbergi skólans. Verkið er frá áttunda áratugnum og sýnir karla sem í stjórn skólans sitja á fundi reykjandi vindla.
Í janúar 2019 var skýrt frá því að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði ákveðið að alfarið skyldi fjarlægja svonefnd nektarmálverk eftir Gunnlaug Blöndal af veggjum í húsakynnum seðlabankans. Um hálfu ári áður tók bankinn til skoðunar „kvörtun starfsmanns sem var misboðið af málverkunum sem innihalda nekt,“ eins og sagði í frétt Fréttablaðsins.
„Ákveðið var að þessi málverk yrðu ekki á almennum vinnusvæðum eða á skrifstofum yfirmanna, þ.e. á þeim svæðum þar sem almennir starfsmenn vinna eða þurfa að leita með erindi,“ sagði Stefán Jóhann Stefánsson, þáv. ritstjóri Seðlabanka Íslands, í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um lyktir málsins 19. janúar 2019.
„Þá mætti alveg eins pakka hálfri listasögunni ofan í geymslu. Mannslíkaminn, bæði karla og kvenna, hefur lengi verið viðfangsefni listamanna,“ var haft eftir prófessornum Guðmundi Oddi Magnússyni, Goddi, í blaðinu.
Fréttir um þetta slaufunarmál í íslenska myndlistarheiminum koma í hugann við lestur fréttar í The Guardian í dag, 27. desember, um deilur í Leiden háskóla í Hollandi um málverk sem hangið hefur í stjórnarherbergi skólans. Verkið er frá áttunda áratugnum og sýnir karla í stjórn skólans sitja á fundi reykjandi vindla.
Umdeilda málsverkið eftir Rein Dool (90 ára) í Leiden háskóla.
Verkið hafði lengi verið þyrnir í augum námsmanna og annarra sem töldu það til marks um feðraveldið og hvetja til reykinga. Í nóvember var verkið tekið niður og myndinni snúið að veggnum.
Þetta vakti hneykslun og reiði út fyrir veggi háskólans. Urðu umræðurnar til þess að Annetje Ottow, rektor háskólans, sagði að ræða þyrfti málið og málverkið væri aftur komið á sinn stað. Sérstök nefnd hefur verið skipuð til að ræða framtíð málverksins og annarra listaverka skólans.
Umræður um slaufunarmenningu vegna verka fyrri alda eru heitar í Hollandi vegna margs sem tengja má þar við nýlendustjórn Hollendinga víða um heim.
Annetje Ottow, rektor Leiden háskóla, sagði um málverkið af körlunum sex að þeir hefðu verið mikils metnir stjórnendur háskólans og málverkið hefði einstakt sögulegt gildi fyrir utan að vera áhrifamikið listaverk. Rektorinn sagði að lausn á ágreiningi um listaverk kynni að felast betri skýringu á þeim og þau yrðu sett í samhengi til að opna betur augu samtímamanna fyrir gildi þeirra. Þá yrði að sýna listamanni og viðfangsefnum hans virðingu. Leiden háskóla virti frelsi og þar væri einstaklega góður vettvangur til að ræða mál af þessum toga til hlítar í leit að lausnum sem mótuðust af því að halda utan um menn og minjar í stað þess að útiloka.
Hér er gjarnan leitað aftur til þess tíma
þegar Jónas frá Hriflu beitti Menntamálaráði til að hefja ákveðna listamenn til
vegs og virðingar á kostnað annarra og látið eins og það sé dæmið um slaufun í
listum hér á landi. Dæmin eru mörg og margvísleg og sum enn flokkspólitískari
en þau sem nefnd eru Jónasi til ámælis, beinast bæði gegn listamönnum og
viðfangsefni þeirra.
Listaverk sem þetta fengi ekki að hanga í almannarými í Seðlabanka Íslands samkvæmt listrænni stefnu bankans. Það sýnir Kúbid og gyðjurnar þrjár og er frá árinu 1738 eftir franska meistarann François Boucher (1703-1770), hangir í Calouste Gulbenkian listasafninu í Lissabon, einu merkasta einkalistasafni heims.