5.8.2022 9:43

Líkur á fríverslun við Bandaríkin aukast

Verði frumvarpið sem nú liggur fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkt hefst nýr kafli í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings liggur nú frumvarp um víðtæka sókn Bandaríkjamanna á norðurslóðum (e. Arctic). Þar er meðal annars að finna heimild til að gera fríverslunarsamning við Ísland. Frumvarpið var lagt fram miðvikudaginn 3. ágúst. Hér má sjá kynningu á frumvarpinu og nálgast það í heild.

Frumvarpið nær til bandarísks þjóðaröryggis, siglinga, rannsókna og viðskipta. Markmiðið er meðal annars að hindra „einokun“ Rússa á siglingum í Norður-Íshafi og tryggja samfellda viðveru bandarísku strandgæslunnar og flotans á norðlægum slóðum. Þá er hvatt til fjárveitinga til rannsókna og grunnvirkja – innan Bandaríkjanna og í samvinnu við aðrar norðurskautsþjóðir en Rússa. Í því samhengi er heimild til þess að gerður sé fríverslunarsamningur við Ísland.

Frumvarpið ber fyrirsögnina: The Arctic Commitment Act og er flutt af repúblikananum Lisu Murkowski frá Alsaka og utan flokka öldungadeildarþingmanninum Angus King frá Maine. Þau hafa bæði komið margoft hingað til lands og fara með forystu í Arctic Caucus öldungadeildarinnar, það er vinnuhópi öldungadeildarþingmanna sem hefur forystu um norðurslóðamál innan deildarinnar, í hópnum eru 10 þingmenn úr báðum flokkum.

2021-11-12T134322Z_1_LYNXMPEHAB0SL_RTROPTP_4_HEALTH-CORONAVIRUS-USA-EDUCATION-scaledLisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Alaska.

Í ákvæðinu varðandi Ísland segir að Bandaríkjaríkjaþing telji að Bandaríkjastjórn eigi að hefja viðræður við ríkisstjórn Íslands um að þróa og gera víðtækan fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Íslands. Þar verði meðal annars tekið af skarið um að Íslendingar geti fengið E-vegabréfsáritun til Bandaríkjanna (hún er fyrir fjárfesta eða viðskiptamenn frá ríki sem hefur gert viðskipta- og siglingasamning við Bandaríkin) enda fái bandarískir ríkisborgarar svipaða stöðu á Íslandi.

Árið 2019 voru miklar viðræður milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um fríverslun og samstarf í efnahagsmálum. Mike Pompeo, þáv. utanríkisráðherra í stjórn Donalds Trumps, kom hingað til lands í febrúar 2019 til viðræðna við Guðlaug Þór Þórðarson, þáv. utanríkisráðherra, um þessi mál. Í september 2019 efndu Guðlaugur Þór og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, til viðskiptaþings í Höfða.

Guðlaugur Þór fundaði undir lok september 2019 með þingmönnum öldunga- og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í Washington og lagði ríka áherslu á að dýpka tvíhliða efnahags- og viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna. Þar var fríverslun og áritanir fyrir fjárfesta og viðskiptamenn sem myndu auðvelda aðgang að Bandaríkjamarkaði í forgangi. Þá var óskað eftir stuðningi þingmanna við að koma á fót vinnuhópi um málefni Íslands með fulltrúum úr báðum þingdeildum.

Á alþingi hefur fríverslunarsamstarf við Bandaríkin margoft verið rædd. Birgir Þórarsinsson, núv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var t.d. 2010 fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um fríverslunarsamning við Bandaríkin. Fyrir forsetatíð Donalds Trumps var rætt um fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna. Þá var sögðu ESB-aðildarsinnar hér á landi að Ísland yrði að ganga í ESB til að njóta góðs af slíkum samningi.

Verði frumvarpið sem nú liggur fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkt hefst nýr kafli í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Íslensk stjórnvöld hljóta nú að leggja ríka áherslu á að málið verði afgreitt fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum í nóvember.