1.1.2018 14:22

Líklega slegið mengunarmet á nýársnótt

Óvarlegt fyrir lungnaveika að fara út fyrir hússins dyr vegna loftmengunar eftir nýárs-skoteldana.

Myndin hér fyrir ofan er tekin klukkan 00.57 á nýársdag þegar sótið frá rakettunum liggur yfir borgina - horft er í norður frá Öskjuhlíð í áttina að Klambratúni.
Þessi mynd er tekin á sama stað og efri myndin klukkan 09.12 að morgni nýársdags.
Í fréttum ríkisútvarpsins sagði í hádegi nýársdags:

„Mengunarmet kann að hafa fallið í nótt í Kópavogi þegar flugeldasprengingar stóðu sem hæst. Þar mældist styrkur svifryks í lofti 90 sinnum meira en það sem heilsusamlegt má teljast. Sérfræðingur í loftgæðum segir að leita verði aftur til öskufalls í eldgosi í Eyjafjallajökli til að finna álíka loftmengun. Mengun af völdum flugelda sé þó skaðlegri þar sem í því eru bæði smærri agnir og sót.

„Það var eiginlega logn og mjög hægur vindur eða áttleysa alveg frá 10 eða 11 í gærkvöld og fram undir morgun. Þannig að mengunin fór ekkert og bara lá yfir svona fram eftir nóttu þannig að það fór mjög hátt á sumum stöðvum,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.

Mengunin varð mest á höfuðborgarsvæðinu. „Hæsti toppurinn var í Dalsmára í Kópavogi, þar fór tíu mínútna gildi í 4.500 míkrógrömm á rúmmetra,“ segir Þorsteinn.

Mengunin varð líka mikil í Reykjavík, segir Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. „Fyrsta klukkustundin á Grensás var 1457 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhringsheilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra svona til samanburðar. Í fyrra var þetta aðeins lægra en samt yfir 1400. En svifryk er yfir heilsuverndarmörkum ennþá á Grensás og okkur sýnist að við munum fara yfir heilsuverndarmörkin á öllum mælingastöðvum í Reykjavík í dag,“ segir Svava.

Vafalaust er hluti af menguninni nú af völdum bílaumferðar, bæði vegna venjulegrar svifryksmengunar og svo vegna þess að bílar þyrla upp rykinu eftir sprengingar næturinnar. Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri ættu að fylgjast með upplýsingum um loftgæði á vef Reykjavíkurborgar.

Skyggni á höfuðborgarsvæðinu fór niður í 700 metra um miðnæturbil og hélst óbreytt í um klukkustund. Viðbúið er að mengunin verði fram eftir degi því Veðurstofan spáir því að ekki fari að bæta í vind fyrr en í kvöld.

Styrkur svifryks mældist 90 sinnum meira en það sem heilsusamlegt má teljast í Kópavogi. Þetta er með því hæsta sem hefur mælst á gamlárskvöld, segir Þorsteinn. „Já, við erum svo sem ekki búin að rýna mikið í gögnin en ég man ekki eftir gildi 4.500 á gamlárskvöld. Þau hafa farið upp undir 3.000 áður,“ segir Þorsteinn.

Þannig að það kann að vera að það hafi verið slegið met hvað mengun varðar? „Það er alveg hugsanlegt alla vega hvað varðar mengun á gamlárskvöld. Það var ansi hátt þegar gaus í Eyjafjallajökli. Ég er samt ekki viss um að það hafi náð þessum tölum, ekki í Reykjavík. Það fór í þessi gildi á Hvolsvelli í gosinu,“ segir Þorsteinn.

Þannig að ástandið sem var hér það var eins og vera við Eyjafjallajökul í gosi? „Já, þetta er náttúrulega kannski verri mengun að því leyti að þetta eru smærri korn og meira sót,“ segir Þorsteinn. Í menguninni í Dalsmára var líka dálítið af brennisteinsdíoxíði og það er alltaf slæm blanda, segir Þorsteinn. Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri hafa væntanlega fundið sviða í hálsi og lungum.