2.9.2018 10:22

Lífskjörin og uppgangur ferðaþjónustunnar

Þakkarvert er að engum beinum ríkisafskiptum til að „tempra uppgang ferðaþjónustunnar“ hefur verið hrundið í framkvæmd.

Hér hefur áður verið vísað til ritgerðar sem Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, samdi fyrir forsætisráðuneytið vegna komandi kjaraviðræðna. Rætt var við Gylfa á Morgunvakt rásar 1 föstudaginn 31. ágúst. Þar sagði hann meðal annars:

 „Lífskjör hafa aldrei verið jafn góð eins og núna. Til dæmis er kaupmáttur launa mun hærri en hann var 2007. Og 2007 er svona hugtak um að þá hafði fólk það gott en það hefur það enn betra núna. Kaupmáttur launa er cirka 19% hærri en hann var 2007.“

Kaupmáttur launa hefur aukist um 25% á síðustu fjórum árum. Gylfi varaði við því að launahækkanir gerðu landið „of dýrt“ og það fældi ferðamenn frá því.

Mikilvægi ferðamanna í þjóðarbúskapnum hefur aukist jafnt og þétt með fjölgun þeirra. Eitt dæmi: Fyrir tekjur af þeim sem koma til Þingvalla (um 1,5 milljón á ári) hefur til dæmis reynst unnt að kosta stækkun gestastofu á Hakinu. Byggingin kostar um 650 m. kr. og nútímaleg sýning um 300 m. kr., samtals um milljarður af sjálfsaflafé þjóðgarðsins. Allt hefur þetta verið gert á skömmum tíma vegna sjálfstæðra ákvarðana Þingvallanefndar sem skipuð er þingmönnum. Þetta er verðugt fordæmi fyrir þá sem eiga og reka aðra ferðamannastaði. Með sjálfstæðri tekjuöflun geta þeir búið betur í haginn, dýrt ferðamannaland verður að bjóða frábæra þjónustu.

L_gr_tta_628x353Myndin er af vefsíðu Þingvallaþjóðgarðs og sýnir hvernig lögrétta er kynnt á nýju sýningunni.

Gylfi sagði á Morgunvaktinni að það hefði verið heppilegt að tempra uppgang ferðaþjónustunnar þar sem hún geri það ekki sjálf. Þá hefði vöxtur ferðaþjónustunnar ekki haft sömu ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar.

Þakkarvert er að engum beinum ríkisafskiptum til að „tempra uppgang ferðaþjónustunnar“ hefur verið hrundið í framkvæmd. Ferðaþjónustan hefur notið sérstöðu innan virðisaukaskattskerfisins og stendur greinin hart gegn öllum breytingum á því sviði. Hún verður jafnframt að standa á eigin fótum án ríkisstuðnings ef harðnar á dalnum.

Gylfi Zoëga hvatti til raunhæfra markmiða í kjarasamningunum. Skilgreina yrði hópa sem hefðu það ekki gott og þyrftu mest á kjarabót að halda. Þetta væri hægt að gera. „Ekki að við ákveðum öll að fá tíu prósent hærri lífskjör, hver einasti Íslendingur í vetur, af því það er engin innistæða fyrir því,“ sagði hann.