4.4.2019 10:10

Lífskjarahátíð í Ráðherrabústaðnum

Sjaldgæft er ef ekki einsdæmi að niðurstaða kjarasamninga sé kynnt í Ráðherrabústaðnum. Það gerðist þó á tólfta tímanum í gærkvöldi.

Sjaldgæft er ef ekki einsdæmi að niðurstaða kjarasamninga sé kynnt í Ráðherrabústaðnum. Það gerðist þó á tólfta tímanum í gærkvöldi (3. apríl) þegar lífskjarasamningarnir svonefndu voru staðfestir og útskýrðir af forráðamönnum viðræðuaðila og ráðherrum í borðsal Ráðherrabústaðarins og viðtöl voru tekin í beinum sjónvarpsútsendingum í stofum hússins.

Að standa þannig að kynningu samninganna áréttaði aðeins mikilvægi aðkomu ríkisvaldsins að gerð þeirra. Samningarnir gilda í þrjú og hálft ár sem er óvenjulegt en er til marks um traustið sem tekist hefur milli aðila. Um áramótin og áður en raunveruleg samningalota aðila launþega og atvinnurekenda hófst höfðu ráðherrar átt fjórtán fundi með þessum aðilum. Líklega hafa þeir flestir farið fram í Ráðherrabústaðnum og þess vegna þótti rökrétt að binda enda á samninganna þar.

Markmið samninganna er að bæta hag þeirra sem helst standa höllum fæti við núverandi aðstæður í samfélaginu en jafnframt standa vörð um einstæða kaupmáttaraukningu sem orðið hefur undanfarin ár.

1124038Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar lífskjarasamningunum í Ráðherrabústaðnum að kvöldi 3. apríl 2019. Ljósm. Hari, mbl

Samningarnar afsanna hrakspár þeirra sem töldu forystumenn ríkisstjórnarinnar ekki færa um að ræða við aðila vinnumarkaðarins á þann hátt að viðundandi niðurstaða fengist. Samningarnir sýna að ekkert slíkt rof var í samfélagsgerðinni vegna ákvarðana kjararáðs að ekki greri um heilt nema ríkisstjórninni yrði ýtt til hliðar. Samningarnir sýna að réttar ákvarðanir voru teknar við myndun þessarar ríkisstjórnar með það að markmiði að skapa sátt og stöðugleika í samfélaginu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, og félagar hennar í Sósíalistaflokki Íslands með Stefán Ólafsson prófessor sem aðalráðgjafa, hljóta nú að skoða hug sinn eins og aðrir sem hafa haft uppi stærstu orðin um nauðsyn þess að kollvarpa samfélagsgerðinni. Sólveig Anna segir nú:

„Ég lít svo á að þetta séu vopnahléssamningar, í þessari eilífu baráttu á milli atvinnurekenda annars vegar og þeirra sem að komast af við að selja aðgang að vinnuaflinu sínu.“

Í orðunum felst fyrirheit um að Sólveig Anna og félagar ætli að virða samfélagsfriðinn í tæp fjögur ár. Það er mikilvæg skuldbinding miðað við margt af því sem ný-sósíalistarnir hafa sagt undanfarið.