Líflegar FB-umræður um 3. pakkann
Þessi orð sýna að það er ekki á vísan að róa á evrópskum orkumarkaði og verðlagning þar er ekki samræmd.
Vegna fréttar í Fréttablaðinu laugardaginn 9. nóvember um að norskir andófsmenn gegn 3. okurpakkanum svonefnda hringdu í alþingismenn setti ég inn á FB-síðu mína:
„Þetta kemur heim og saman við niðurstöðu mína: Andófið hér gegn 3ja orkupakkanum hófst ekki hér fyrr en tapsárir Norðmenn hófu að hringja hingað og koma eftir að hafa orðið undir í norska stórþinginu. Áður en það gerðist höfðu alþingi og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs afrgreitt málið inn í EES-ferlið án athugasemda.“
Vegna þessa urðu líflegar umræður á FB-síðu minni. Flestir sem tóku þátt í þeim voru málefnalegir. Til að skapa meira rými fyrir vini á síðu minni verð ég að ritstýra henni með útilokun á þeim sem grípa til persónulegra ávirðinga.
Myndin er úr Fréttablaðinu 10. nóvember 2018 og sýnir ráðherrana Sigríði Á. Andersen og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur koma til fundar í Ráðherrabústaðnum.
Undir lok dags kvaddi Róbert Sveinn Róbertsson sér hljóðs og spurði hvort rétt væri að samþykkt þessa pakka yrði til þess að hækka orkuverð hér. Ég benti á að ekkert samræmt orkuverð væri í Evrópu. Róbert Sveinn skaut þá málinu til Sigurjóns Björnssonar sem hann sagði að vissi allt um þetta.
Sigurjón Björnsson svaraði frá útlöndum og sagði:
„Má eiginlega segja að Norðmenn hafi verið leiðandi í frjálsu markaðsumhverfi á rafmagni, en það getur verið gríðarleg sveifla í rafmagnframleiðslunni hjá þeim svona 80 TWh til 140 TWh og meðalið kringum 112 TWh á ári. Þeir hafa styrkt tenginguna við útlönd og betur tengdur meiri verðmæti (og minna backup) og aukin tækifæri. Leiðarinn sem þeir byggðu til Hollands var gullmaskína fyrir Noreg.
Orkumarkaðurinn er mjög flókinn markaður, verðflöktið er gríðarlegt, flöskuhálsar og framvirki markaðurinn virkar kannski best á Nordpool svæðinu.
Menn fengu sannarlega að finna fyrir því kringum 2014-16 en stór orkufyrirtæki einsog Vattenfal l, Ørested og þýsku orkurisarnir þurftu afskrifa háar upphæðir.
Bandarísku fyrirækin sem voru mjög stór í future og option markaðnum drógu sig út úr Evrópu skilst mér aðallega útaf pólitískri áhættu kringum 2004-2005 (en Enron voru mjög stórir þangað til þeir rúlluðu), en það voru og eru kannski enn gríðarlegir ríkisstyrkir í umhverfisorku einsog sól og vind. Þessi blanda af ríkis- og frjálsum markaði getur stundum verið eiturblanda fyrir fjárfesta.
Hans Werner Sinn þýskur hagfræðingur hefur skrifað bók sem heitir Das grüne Paradoxon. “
Þessi orð sýna að það er ekki á vísan að róa á evrópskum orkumarkaði og verðlagning þar er ekki samræmd.
Haraldur Ólafsson, formaður Heimssýnar, tók einnig til máls á FB-síðu minni og sagði meðal annars:
„Svo því sé haldið til haga bauð Heimssýn Katrínu Kleveland, formanni fullveldissamtaka Noregs, Nei til EU, að halda erindi á opnum fundi í Reykjavík um orkumálin. Þá ályktaði félagið gegn samþykkt orkubálksins enda gengur hann gegn stjórnarskrá, og reyndar einnig gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Allt þetta gerðist áður en Stórþingið í Osló samþykkti bálkinn sem var 22. mars.
--
Hitt er svo annað að sú aðferð að koma málum áfram með því að „samþykkja“ þau í alþjóðlegri nefnd eftir „kynningu“ á Alþingi og taka þau svo til alvöru umræðu með því fororði að það sé „of seint“ að vera á móti er vægast sagt undarleg og auðvitað ekki ásættanleg.“
Vegna þessara orða Haraldar sagði ég á FB-síðunni:
„Að orða þetta á þennan veg [eins og Haraldur gerir] gefur ekki rétta mynd af því hvernig fjallað var um þetta mál á alþingi. Það var ekki aðeins utanríkismálanefnd sem gaf grænt ljós heldur einnig atvinnuveganefnd þingsins auk þess sem kallað var eftir áliti stjórnlagafræðinga sem ályktuðu á þann veg að 3 pakkinn stæðist stjórnarskrá. Að telja þetta undarleg og óásættanleg vinnubrögð er í besta lagi vanþekking á þessum þætti þinglegrar meðferðar málsins. Þvert á móti er þetta aðferð sem til að auka aðhald og eftirlit alþingis.“
Ég set þetta inn í dagbókina sunnudaginn 11. nóvember til að varðveita hluta af líflegum FB-umræðum laugardagsins 10. nóvember.