10.4.2020 14:47

Lifandi flutningur frá Leipzig

Það er einstakt afrek hjá Benedikt Kristjánssyni að syngja einn alla passíuna á þann veg sem hann gerir.

Þegar þetta er skrifað, föstudaginn langa, 10. apríl, má sjá á netinu beina útsendingu frá Tómasarkirkjunni í Leipzig, kirkjunni þar sem Johann Sebastian Bach var orgelleikari og þar sem hann er grafinn.

Frá mannlausri kirkjunni streymir nú Jóhannesarpassía Bachs í flutningi Benedikts Kristjánssonar (33 ára) tenórs, Elbinu Albach orgelleikara og Philipps Lamprechts slagverksleikara. Segir í fréttum það þetta sé eini lifandi flutningurinn á passíunni á föstudaginn langa í ár.

Auk þessara þriggja einleikara taka Gotthold Schwarz, kantór Tómasarkirkjunnar, og nokkrir söngvarar þátt í flutningnum í kirkjunni en jafnframt er streymt söng hljóðfæraleik frá Sviss, Ástralíu og Malasíu. Er þetta í fyrsta sinn í 150 ár sem ekki er unnt að sitja í Tómasarkirkjunni og njóta flutnings á passíunni þar.

Rás 1 í kvöld kl. 19 verður útvarpað upptöku á Jóhannesarpassíunnni í Hallgrímskirkju 4. mars sl. þegar Benedikt, Elbina og Philipp fluttu hana þar við frábærar undirtektir.)

Það er einstakt afrek hjá Benedikt Kristjánssyni að syngja einn alla passíuna á þann veg sem hann gerir. Sannast best hve mikla virðingu söngur hans og flutningar þeirra þriggja hefur áunnið sér að þau skuli valin í þessa sögulegu útsendingu.

2019_03_24_Podium_Johannespassion_0079-1024x683Benedikt, Elbina og Philipp flytja Jóhannesarpassíuna,

Bjarni Thor Kristinsson heldur úti Dagbók óperusöngvara á Facebook 

Miðvikudaginn 8. apríl vakti hann máls á að engir klassískir söngvarar hefðu verið kallaðir á vettvang þegar almannavarnatríóið söng um góða ferð í sjónvarpsþætti kvöldið áður. Bjarni Thor segir:

„Við erum gleymd og grafin. Í einum og einum útvarpsþætti á Rás 1 heyrist af og til í einhverju okkar. Við vorum einu sinni vinsæl meðal almennings og það þótti gaman að hlusta á okkur. Við gátum fyllt tónleikasali og fólk slóst jafnvel stundum um miða. Það voru tekin við okkur viðtöl og þegar mikið stóð til þá var leitað til okkar. Við klassískir söngvarar vorum vinsæl. Við vorum cool og nú erum við grafin og gleymd.[...]

Dagurinn þegar síðasta lag fyrir fréttir var fært á annan stað í hádegisútvarpinu er dagurinn sem íslenska sönglagið var skráð í útrýmingarhættu. Bráðum þekkir enginn lengur lögin sem sum hver fylgdu þjóðinni í heila öld og stóðu af sér stríð og tískubreytingar. En af og til miskunnar sig einhver poppari yfir gamla söngperlu; bætir inn smá trommubíti, breytir laglínunni ef hún er ekki nógu skemmtileg og gerir þannig lagið vinsælt aftur.“

Þessi breyting á hádegisútvarpinu var gerð skömmu eftir að Magnús Geir Þórðarson varð útvarpsstjóri. Ekki var neitt mark tekið á gagnrýnisröddum heldur farið að kröfum markaðs- og auglýsingamanna. Vegur nýs útvarpsstjóra mundi vaxa við að setja síðasta lag fyrir hádegisfréttir að nýju á sinn stað – það yrði ekki aðeins virðingarvottur við íslenska sönglagið heldur einnig klassíska íslenska söngvara og flytjendur.