Líður að ögurstund Bidens
Loft er lævi blandið í Washington meðal allra sem telja sig hafa stöðu til að deila og drottna og þar með koma sitjandi forseta og frambjóðanda með umboð demókrata frá völdum.
Sir Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, hitti Joe Biden Bandaríkjaforseta í fyrsta sinn á tveggja manna fundi í Hvíta húsinu í Washington fimmtudaginn 11. júlí. Þeir ræddu saman í tæpa klukkustund og sagði Sir Keir við BBC að Biden væri hvorki elliær né of gamall til að vera forseti Bandaríkjanna. Forsetinn hefði verið „mjög vel á sig kominn“ og haft „allt á hreinu“.
Forystumenn NATO-þjóðanna héldu í sér andanum á sviðinu með Biden þegar hann kynnti Zelenskíj sem Pútin forseta. Í efstu röð má sjá Bjarna Benediktsson forsætisráðherra.
Þessi ummæli stinga í stúf við flest annað sem sagt er um Biden eftir þriggja daga 75 ára afmælisfund NATO sem lauk með blaðamannafundi gestgjafans, Bidens, síðdegis 11. júlí. Þar mismælti Biden sig tvisvar. Þegar hann kynnti Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta sem President Putin og kallaði varaforseta sinn, Kamelu Harris, vice president Trump.
Blaðamaður The Telegraph, Tony Diver, sem var á blaðamannafundinum sagði að honum loknum: „Hafi Joe Biden viljað hanna tvö mismæli til að valda forsetastöðu sinni mesta hugsanlega skaða er erfitt að slá honum við eftir framgöngu hans að kvöldi fimmtudagsins.“
Þegar litið er til NATO-fundarins og þess sem þar gerðist er samdóma álit að hann hafi verið mjög árangursríkur og enn ein staðfestingin á því hve bandalagið er öflugt og bandalagsþjóðirnar einhuga um stuðning sinn við Úkraínumenn í varnarstríðinu gegn Rússum. Lagt var á ráðin um að efla varnir bandalagsþjóðanna enn frekar til að halda Rússum í skefjum og fæla þá frá öllum hugmyndum um hernaðarátök við eitthvert NATO-ríkjanna.
Í þessu ljósi er dapurlegra en ella að blaðamannafundur Bidens verði til þess að beina athygli frá fundinum og að vandræðum hans sjálfs vegna hrumleika og mismæla við að ávarpa fólk eða erfiðleika við að halda þræði til að rekja skoðanir sínar eða hugsanir til enda í mæltu máli.
Þeir sem fylgdust best með blaðamannafundinum segjast hafa tekið eftir því að forsetinn notaði atviksorðið anyway – alltént (hvað sem öðru líður) –í tíma og ótíma. Er talið að ráðgjafar forsetans hafi minnt hann á að þetta orð mætti nota til að botna setningar í stað vandræðalegrar þagnar eftir að þráðurinn slitnaði.
Fyrir blaðamannafundinn var hann blásinn upp í fjölmiðlum sem úrslitastund við mat á því hvort Biden ætti að halda áfram að berjast fyrir endurkjöri eða draga sig í hlé.
Svo stór ákvörðun er ekki reist á því sem gerist á einum fundi eða í einum sjónvarpskappræðum heldur með vísan til heildarmyndarinnar. Þar birtist á sífellt skýrari hátt að Biden er óhæfur til að halda áfram.
Þeim fjölgar meðal þingmanna demókrata sem telja að Biden eigi að draga sig í hlé. Nú vitnar CNN-fréttastöðin í heimildarmenn sem segja að Barack Obama, fv. forseti, lýsi í einkasamtölum áhyggjum yfir að Joe Biden nái ekki endurkjöri. Þá segir frá grunsemdum meðal nánustu samstarfsmanna Bidens um að Obama hafi komið við sögu þegar leikarinn George Clooney birti grein í The New York Times um að Biden ætti að segja af sér.
Loft er lævi blandið í Washington meðal allra sem telja sig hafa stöðu til að deila og drottna og þar með koma sitjandi forseta og frambjóðanda með umboð demókrata frá völdum. Nú eftir NATO-toppfundinn er ekki eftir neinu að bíða.