Leyndarhyggjuborgin Reykjavík
Markmið borgarstjórans er að skapa leyndarhjúp um þennan opinbera rekstur í von um að samkeppnisstaða hans batni með starfsemi á bak við luktar dyr.
Vakin var athygli á því í Staksteinum Morgunblaðsins mánudaginn 15. mars að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefði fengið samþykkt í borgarráði í liðinni viku að fallist yrði á ósk Orkuveitu Reykjavíkur um „undanþágu frá upplýsingalögum fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur á samkeppnismarkaði“. Fyrirtækin sem um er að ræða eru Orka náttúrunnar ohf., ON power ohf., Gagnaveita Reykjavíkur ehf. og Carbfix ohf.
Tillöguna flutti borgarstjóri og hún hlaut stuðning meirihluta borgarráðs þótt í sáttmála meirihlutans fyrir kjörtímabilið 2018 til 2022 segi „að ljúka þurfi opnun bókhalds á kjörtímabilinu og stuðla að því að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar og byggðasamlaga séu eins gagnsæ og opin og kostur er“.
Í Morgunblaðinu í dag (16. mars) segir Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku, fyrirhugaða undanþágu dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur (OR) frá upplýsingalögum skerða samkeppnisstöðu einkafyrirtækja.
Sigurður rifjar upp að fyrir rúmum tveimur árum hafi Ísorka lagt fram kvörtun vegna framferðis Orku náttúrunnar (ON) á markaðnum. Vegna kvörtunarinnar hóf Samkeppniseftirlitið í október 2020 formlega rannsókn á starfsemi ON.
Ísorka kvartaði til kærunefndar upplýsingamála þegar ON neitaði að afhenda samning sinn við Landspítalann. Nefndin gaf ON fyrirmæli um að birta samninginn. „Og þegar hann var birtur komu í ljós mjög alvarleg brot. Og þetta gagn er eitt af lykilgögnum í kvörtun okkar til Samkeppniseftirlitsins,“ segir Sigurður Ástgeirsson.
Tillaga borgarstjórans og samþykkt meirihluta borgarstjórnar á henni snýst um að útiloka að einkafyrirtæki geti leitað réttar síns á þennan hátt. Markmið borgarstjórans er að skapa leyndarhjúp um þennan opinbera rekstur í von um að samkeppnisstaða hans batni með starfsemi á bak við luktar dyr. Ákvörðun meirihlutans gengur þvert á gagnsæis-samþykktina í samstarfssáttmála hans.
Höfuðborgarheitið tengt nafni Reykjavíkurborgar þótti löngum nóg til að efla virðingu hennar. Það dugar ekki lengur, bókmenntaborgin Reykjavík er gjarnan notað í hátíðarræðum og á dögunum flaggaði borgarstjóri nafni borgarinnar með ensku orðunum science city, það er vísindaborgin.
Þegar litið er til stjórnarhátta meirihlutans og hve erfitt er að afla upplýsinga um margvísleg mál, til dæmis um kostnað við endurnýjun á bragga við Nauthólsvík eða gerð torgs við Óðinsgötu, mætti velta fyrir sér viðbótinni leyndarhyggjuborgin Reykjavík.
Samþykkt borgarráðs um leyndina vegna starfsemi dótturfyrirtækja OR er í þeim anda að opinber hlutafélög og starfsemi á þeirra vegum eigi að vera einskonar ríki í ríki. Innan stjórna þessara félaga er alið á mikilli hræðslu við minnsta áreiti eins og birtist þegar stjórn ríkisútvarpsins vill ekki birta nöfn umsækjenda um starf útvarpsstjóra, ÁTVR telur framtíð sinni ógnað með sölu smábruggara á eigin bjór eða Íslandspóstur telur tilveru sinni ógnað vegna skyldna um að dreifa bréfum.