7.10.2020 12:06

Leynd svipt af lesskimunarprófi

Liður í að bæta skólastarf er að auka aðgengi foreldra og forráðamanna barna að upplýsingum um árangur innan veggja skólanna.

„Ákaflega mikill munur er milli einstakra grunnskóla Reykjavíkur þegar litið er til lesskilnings barna við lok 2. bekkjar. Í Hamraskóla í Grafarvogi voru 85% nemenda í lesskimun með viðunandi lesskilning, en í Selásskóla í Árbæ reyndust einungis 30% með nægan lesskilning,“ segir í frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

LimagesÞetta eru alvarleg tíðindi. Hitt er þó ekki síður alvarlegt að svo virðist sem gögnum sem sýna þessa niðurstöðu hafi verið lekið til blaðsins, farið sé með þau sem leyndarmál í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem ber ábyrgð á rekstri og viðgangi grunnskólanna. Lesskimunin sem leiddi til þessarar niðurstöðu var gerð vorið 2019 fyrir skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. „Þær niðurstöður voru aldrei birtar opinberlega og síðan ákveðið að hætta þessari samræmdu lesskimun,“ segir í frétt Morgunblaðsins.

Að neita að birta upplýsingar sem benda til ólestrar við stjórn Reykjavíkurborgar er meðal þeirra aðferða sem meirihluti borgarstjórnar beitir til að viðhalda blekkingunni um góða stjórnarhætti. Hin aðferð meirihlutans er að láta hætta mælingum sem hann telur skila vondri niðurstöðu fyrir sig.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, hefur löngum tekið að sér að láta eins og allt sé í himnalagi þótt staðreyndir sýni annað. Hann talar nú lesskimunarprófið og gildi þess niður með þessum orðum:

„Þetta lesskimunarpróf í 2. bekk hefur fyrst og fremst verið notað til þess að finna þá nemendur, sem þurfa sérstakan stuðning og veita þeim hann. Við lítum ekki á það sem einhvern stóradóm yfir námsárangri barna í borginni.“

Hann ætlar sem sagt að láta sér þetta í léttu rúmi liggja. Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir:

„Þessi útkoma er óviðunandi. Við áttum að vera að bæta okkur frá árinu 2015, þegar Reykjavíkurborg gerðist aðili að sáttmála um betra læsi, en síðan hefur okkur hrakað. Það er óviðunandi. Það þarf bæði að hafa betri mælingar og vinna með þeim, sem dragast aftur úr, svo þessi hlutföll sjáist ekki framar. Þessi mikli munur á skólum vekur síðan athygli og sjálfstæðar spurningar. Þar að baki búa stórir hópar, sem þurfa meiri aðstoð, svo mikið er víst.“

Liður í að bæta skólastarf er að auka aðgengi foreldra og forráðamanna barna að upplýsingum um árangur innan veggja skólanna. Þessar upplýsingar eiga að vera opnar og aðgengilegar svo að unnt sé að draga af þeim ályktanir. Í Reykjavík fór lesskimunin fram í 34 skólum og í Morgunblaðinu má sjá töflu sem sýnir samanburð á milli skólanna.

Unnt er að finna alls kyns afsakanir gegn því að slíkar töflur séu birtar og upplýsingum af þessu tagi miðlað til almennings. Sé markmiðið að stuðla að opnum umræðum um skólastarf í þeim tilgangi að auka metnað og skilning á mikilvægi menntunar fyrir utan að finna snögga bletti skiptir miðlun upplýsinga og opin umræða sköpum. Þöggun eða fagurgali um eitthvað sem augljóslega verður að færa til betri vegar gerir aðeins illt verra.