Léttir fyrir Theresu May
Nú er ekki rætt um að Theresa May verði að hverfa úr leiðtogasæti í sínum flokki heldur snúast umræðurnar um hvort „Corbyn-tindinum“ hafi verið náð.
Kosið var til hluta sveitarstjórna á Englandi fimmtudaginn 3. maí. Fyrir kosningarnar var þess spáð að Íhaldsflokkurinn missti meirihluta sinn í nokkrum „djásnum“ sínum í London, meira að segja Westminster. Bent var á að ríkisstjórnin stæði höllum fæti. Mánudaginn 30. apríl sagði innanríkisráðherrann, Amber Rudd, af sér vegna deilna um meðferð útlendingamála. Íhaldsflokkurinn logar í ágreiningi vegna Brexit (úrsagnarinnar úr ESB) og gagnrýni á Theresu May forsætisráðherra setur svip á flokkinn.
Þegar atkvæði höfðu verið talin breyttist tónninn. Íhaldsmenn fögnuðu og Theresa May var hvött til að „gefa ekkert eftir“ varðandi Brexit vegna þess að kjósendur UKIP, andstöðuflokks ESB, hefðu að þessu sinni stutt Íhaldsflokkinn enda galt UKIP afhroð í kosningunum, fékk aðeins 3 sveitarstjórnarmenn, tapaði 123. Leiðtogi flokksins líkti úrslitunum sem „svarta dauða“.
Nú er ekki rætt um að Theresa May verði að hverfa úr leiðtogasæti í sínum flokki heldur snúast umræðurnar um hvort „Corbyn-tindinum“ hafi verið náð og nú taki að halla undan fæti hjá Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins.
Alistair Campell sem var áróðursstjóri Verkamannaflokksins þegar Tony Blair reisti flokkinn úr öskustónni er ómyrkur í máli um Corbyn og hans fólk. Flokkurinn geti aldrei myndað ríkisstjórn undir forystu Corbyns.
Fyrir kosningarnar töldu íhaldsmenn meðal annars í vikublaðinu The Spectator að hreyfingin Momentum innan Verkamannaflokksins sem styður Corbyn byggi yfir slíkum krafti og aðdráttarafli, einkum fyrir ungt fólk, að hún sópaði fylgi til flokksins.
Íhaldsmenn fagna sigri í Wandsworth. Verkamannaflokkurinn lagði höfuðáherslu á að ná meirihluta í bæjarstjórninni.Mynd:: HENRY NICHOLLS
Þegar tölur lágu fyrir sagðist Corbyn hafa orðið „fyrir vonbrigðum“, hann hefði vænst betri árangurs hjá flokki sínum.
BBC metur úrslitin á þann veg að ekki sé unnt að kalla neinn sigurvegara en vonbrigði Verkamannaflokksins megi rekja til þess að honum hafi mistekist að ná meirihluta í nokkrum sveitarstjórnum þar sem flokksmenn lögðu sérstaka áherslu á sigur eins og í Wandsworth í London. Sigurgleði íhaldsmanna stafi af þessu.
Kosningaskýrendur segja stóru flokkana tvo standa jafnfætis með um 35% fylgi hvor flokkur. Íhaldsmenn megi vel við það una eftir að hafa setið átta ár í ríkisstjórn.