21.3.2023 10:39

Leikskólavandi Reykjavíkur

Í stað þess að semja sjálfur við sjálfstætt starfandi leikskóla íhugar borgarstjóri að þrengja að starfsemi slíkra skóla með hertum opinberum reglum og fyrirmælum.

Það var dæmigert fyrir Dag B. Eggertsson, borgarstjóra í Reykjavík, að segja í samtali sem birtist 17. mars á mbl. vegna skorts á leikskólarými í borginni að nauðsynlegt væri að hnykkja á því í samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík, að reykvísk börn hefðu þar forgang. Börnum úr öðrum sveitarfélögum hefði fjölgað inni á sjálfstætt starfandi leikskólum og það skapaði ákveðinn vanda. Sjálfstætt starfandi leikskólar hefðu til að mynda tekið inn færri börn úr Reykjavík haustið 2022 heldur en 2021 þrátt fyrir að plássum þar hefði fjölgað.

Miðað við hvernig þessu var slegið upp í fyrirsögn viðtalsins mátti ætla að þarna væri að finna skýringu á því neyðarástandi sem er í leikskólamálum borgarinnar. Svo er auðvitað ekki. Þetta er hins vegar dæmigerð leið til að drepa umræðum um alvarleg mál á dreif og einnig til þess að koma höggi á sjálfstæðu leikskólana. Þeir eiga ekki upp á pallborðið hjá vinstri meirihlutanum í borginni og eru þarna gerðir að blóraböggli til að draga athygli frá margítrekuðum svikum Dags B. á loforðum sínum í leikskólamálum.

1402443Vegna fundar borgarráðs Reykjavíkur 16. mars 2023 komu áhyggjufullir foreldrar saman með börn sín í ráðhúsinu og mótmæltu ráðaleysi borgaryfirvalda í leikskólamálum (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).

Fyrir skömmu samdi Mosfellsbær við sjálfstætt starfandi leikskóla í Grafarvogi um að taka við 50 leikskólabörnum úr sveitarfélaginu, fyrir eru 22 börn úr Mosfellsbæ í leikskólanum. Með andvaraleysi eða fordómum í garð sjálfstætt starfandi leikskóla lét Reykjavíkurborg undir höfuð leggjast að semja um að þessi 72 leikskólapláss færu til barna sem búsett eru í Reykjavík.

Í stað þess að semja sjálfur við sjálfstætt starfandi leikskóla íhugar borgarstjóri að þrengja að starfsemi slíkra skóla með hertum opinberum reglum og fyrirmælum.

Dagur B. og meirihluti hans hefur einnig haft horn í síðu dagforeldra en frá 2014 hefur þeim fækkað í Reykjavík úr 204 í 86. Nú segir hins vegar framsóknarkonan Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, að ætlunin sé að styrkja dagforeldrakerfið. Hver treystir þessum meirihluta borgarstjórnar til þess? Hverjir vilja starfa í slíku kerfi undir stjórn pólitísks meirihluta sem lýsti sig andvígan kerfinu?

Á mbl.is birtist 16. mars samtal við Halldóru Björk Þórarinsdóttur, formann Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík, sem sagði helstu ástæðu þess að dagforeldum hefði fækkað svona ört í Reykjavík væri tilkynning frá samfylkingarmanninum Skúla Helgasyni, fyrrverandi formanni skóla og frístundaráðs, á hverfafundi í Vindheimum í febrúar 2019 með dagforeldrum að þeir yrðu óþarfir árið 2023 þar sem á þeim tíma ættu öll börn á yfir 12 mánaða aldri að vera komin með pláss á leikskóla.

Þessi ummæli Skúla lýsa í hnotskurn ástæðunum fyrir þeim vanda sem við blasir í leikskólamálum Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri og hirð hans hefur trúað eigin fagurgala og stjórnað í samræmi við hann en ekki raunveruleikann.

Þarf nokkurn að undra að þetta fólk sjái þá leið besta út úr eigin vandræðum að eyðileggja borgarskjalasafnið? Að fela heimildirnar um eigin ósannindi og blekkingar. Kaldur veruleikinn blasir þó við þeim sem ekki fá viðunandi úrlausn eigin mála vegna stjórnleysis og svikinna kosningaloforða.