16.3.2024 11:44

Leigubílaakstur á íslensku

Umræður um réttindi til leigubílaaksturs komust í hámæli eftir að Morgunblaðið birti frétt um að Ökuskólinn efndi til prófs á íslensku fyrir verðandi leigubílstjóra sem kunna ekki íslensku.

Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslensku og málfarslegur aðgerðasinni, segir í grein á Vísi föstudaginn 15. mars að hann hafi undanfarið „beðið í angist eftir því [...] – að íslenskan yrði notuð opinberlega og á óskammfeilinn hátt sem vopn í þeirri útlendingaandúð sem hér er miskunnarlaust alið á þessa dagana“.

Tilefni greinarinnar er að Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur forgöngu um það á alþingi að lögum um leigubifreiðaakstur verði breytt á þann veg að próf í íslensku verði gert að skilyrði fyrir því að menn geti aflað sér réttinda til aksturs leigubíla. Telur Eiríkur að með þessu sé vikið frá því að kröfur um íslenskukunnáttu séu málefnalegar og ekki megi „fyrir nokkra muni nota slíkar kröfur til að mismuna fólki á ómálefnalegan hátt“.

Umræður um réttindi til leigubílaaksturs komust í hámæli eftir að Morgunblaðið birti frétt um að Ökuskólinn efndi til prófs á íslensku fyrir verðandi leigubílstjóra sem kunna ekki íslensku. Aðrir tóku einfaldlega prófin fyrir þessa einstaklinga með aðstoð farsíma.

Eftir að fréttin birtist hneyksluðust margir á þessari framkvæmd og eins og venja er hér beindist athygli að regluverkinu og eftirlitinu en ábyrgð á því er að lokum á herðum innviðaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem sagði að bæði ætti að bæta möguleika útlendinga sem hér starfa til að læra íslensku og kanna hvaða kröfur væri hægt að gera til þeirra um íslenskukunnáttu.

Fyrri kosturinn, íslenskukennslan, hefur verið til könnunar svo lengi að undrun vekur að ekki hafi náðst meiri árangur á því sviði en raun ber vitni. Má líklega rekja það til skorts á kröfum um íslenskukunnáttu á innlendum vinnumarkaði.

Hreyfill-logo-5-88-600x381

Vinnumálastofnun greiðir fyrir námskeið til leigubílaaksturs. Þetta er sagt vinnumarkaðsúrræði sem ekki eigi við um hælisleitendur, heldur einungis þá sem séu í atvinnuleit og eigi sér sögu á vinnumarkaði og hafi farið á atvinnuleysisbætur. Þetta á bæði við um Íslendinga og útlendinga.

Íslenska ríkið hefði í hendi sér að ákveða að þeir einir fengju styrk til að sækja þetta námskeið sem hefðu grunnkunnáttu í íslensku.

Uppgjafaprófessorinn talar í grein sinni um að það sé til marks um útlendingaandúð að gera kröfu um kunnáttu í íslensku til að unnt sé að stunda hér ákveðin störf. Að gera megi kröfu um þetta er eðlilegur hluti af EES-samningnum sem hér hefur gilt í 30 ár. Sá samningur verður seint kenndur við útlendingaandúð enda hefur hann opnað íslenskan vinnumarkað með ákvæðunum um frjálsa för. Stærstur hluti þess erlenda fólks sem hingað kemur vegna atvinnu nýtur réttinda í krafti EES-samningsins en honum fylgja einnig skyldur sem gistiríkið ákveður.

Rætur útlendingaandúðar eru margar og meðal annars þær að mönnum finnist að þeir sem fara með opinbert vald mismuni í þágu útlendinga. Það er undirrótin að gagnrýni á framkvæmd nýrra lagaákvæða um leigubílaakstur. Það slær á andúðina að laga lögin að því sem skynsamlegt er.