21.6.2019 12:30

Leiðtogakjör í Bretlandi og Brussel

Innan ESB eru ekki síður mikil spenna núna en í Bretlandi vegna vals á nýrri forystusveit til næstu fimm ára.

Spennandi kosning fer nú fram innan breska Íhaldsflokksins um eftirmann Theresu May. Fyrst gera þingmenn flokksins upp á milli frambjóðenda þar til tveir sitja eftir. Þeir eru Boris Johnson, fyrrv. borgarstjóri í London og fyrrv. utanríkisráðherra, og Jeremy Hunt utanríkisráðherra. Flestir spá Johnson sigri. Hann var farsæll og vinsæll borgarstjóri en honum vegnaði ekki eins vel sem utanríkisráðherra. Þar var hann ef til vill undir of miklum aga May til að njóta sín.

Nú ganga þeir Johnson og Hunt fram fyrir þá sem skráðir eru í Íhaldsflokkinn. Þeir eiga síðasta orðið. Johnson segir að hann vilji Bretland úr ESB 31. október 2019 hvort sem er með samningi eða án hans. Breska þingið hefur margoft ályktað að semja verði við ESB. Næsti forsætisráðherra Breta hefur 100 daga til að leysa brexit-klemmuna og skapa nýjar samstarfsforsendur við ESB.

Eu-summitDonald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, þarf að finna nýja frambjóðendur.

Innan ESB eru ekki síður mikil spenna núna en í Bretlandi vegna vals á nýrri forystusveit til næstu fimm ára. Leiðtogaráð ESB kom saman í gær (20. júní) til að kanna hvort næg samstaða væri í hópnum til að hann tilnefndi eftirmann Jean-Claudes Junckers, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þrjú voru til umræðu samkvæmt oddvita-reglunni (spitzkandidat-reglunni): Þjóðverjinn Manfred Weber frá mið-hægrimönnum (EPP), Hollendingurinn Frans Timmermans frá mið-vinstrimönnum (SD) og Daninn Margrethe Vestager frá frjálslyndum (ALDE). Þeim var hafnað og nú er þess vænst að Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, leggi fram ný nöfn fyrir leiðtogaráðið sem kemur saman að nýju 30. júní.

Leiðtogar landanna þriggja sem þarna áttu frambjóðendur láta eins og þeir komi enn til álita en Emmanuel Macron Frakklandsforseti var afdráttarlaus eftir fundinn þegar hann sagði að þau væru úr sögunni og leitað væri nýrra frambjóðenda.

Macron er eindreginn andstæðingur oddvita-reglunnar enda kemur enginn Frakki til álita samkvæmt henni. Angela Merkel Þýskalandskanslari styður regluna af því að samlandi hennar og flokksbróðir, Weber, á í hlut.

Það var ekki fyrr en 01.40 aðfaranótt föstudagsins 21. júní sem leiðtogaráðsfundinum lauk án árangurs.

Nú er spurning hvort samstaða næst um Frakkann Michel Barnier, sem leitt hefur brexit-viðræðurnar fyrir ESB. Hann er úr röðum EPP, stærsta ESB-þingflokksins. Þá er Frakkinn Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, einnig nefnd til sögunnar. Hún á einnig EPP-rætur. Hvort Merkel sætti sig við að Frakki komi í stað Þjóðverja er óvíst. Haft er eftir henni að hún þurfi 10 daga til að róa Weber og stuðningsmenn hans í CSU, flokki kristilegra í Bæjaralandi.

Andlit stjórnar Breta og ESB eru að breytast en Juncker hættir ekki fyrr en 1. nóvember, daginn eftir að Boris ætlar með Breta úr ESB.